Á Degi íslenskrar náttúru, þann 16. september nk. kl. 13-16, bjóða Landgræðsla ríkisins, Landbúnaðarháskóli Íslands og Skógrækt ríkisins til útifræðslu um söfnun og sáningu birkifræs við hús Landbúnaðarháskólans að Keldnaholti, 112 Reykjavík.

Birkiskógurinn er eitt af lykilvistkerfum landsins og hefur mikla þýðingu fyrir jarðvegsvernd, vatnsvernd, líffræðilegan fjölbreytileika og aðra vistfræðilega þjónustu. Því er mikilvægt að auka útbreiðslu birkis. Allir geta safnað birkifræi. Það er skemmtileg útivist fyrir fjölskyldur og vinahópa. Að jafnaði nær birkifræ þroska um miðjan september. Víða er hægt að safna fræinu, bæði í görðum og skóglendi. Ávallt skal þó leita leyfis ef safnað er í einkalöndum. Best er að safna fræinu í þurru veðri. Reklarnir eru tíndir af trjánum og fræinu annað hvort sáð beint í landið eða það þurrkað og sett í þurra og kalda geymslu þar til það er notað. Við sáningu er fræið mulið úr reklunum og því dreift á jörðina. Best er að sá í hálfgróið land. Fullgróið land eða ógróið hentar ekki til sáningar. Ekki skal róta yfir fræið en þjappa því niður með fætinum. 

Nánari upplýsingar um söfnun og sáningu birkifræs:

Allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til að mæta!