Í Skriðufellsnesi vex aðallega birki, reyniviður og önnur lauftré. Skógurinn er því ekki mjög eldfim…
Í Skriðufellsnesi vex aðallega birki, reyniviður og önnur lauftré. Skógurinn er því ekki mjög eldfimur en þó getur verið aukin eldhætta í mikilli þurrkatíð, einkum á vorin en einnig ef þrálátir þurrkar verða á sumrin.

Hættan í meðallagi og auðvelt að draga úr henni

Verkfræðistofan Mannvit hefur unnið skýrslu fyrir Skógrækt ríkisins og Skeiða- og Gnúpverjahrepp um hugsanlega brunahættu á hjólhýsasvæðinu í Skriðufellsnesi í Þjórsárdal. Niðurstaðan er sú að brunahætta þar sé í meðallagi miðað við sambærileg svæði en aðgerða þörf til að draga úr henni svo hún verði lítil. Á næstunni verða skipulagðar þær úrbætur sem ráðast þarf í á svæðinu.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps óskaði eftir því að skýrslan yrði gerð en svæðið er í eigu Skógræktar ríkisins. Árið 2014 gerði Mannvit sams konar úttekt á 27 svæðum í Bláskógabyggð og miðað við þau er hætta á skógareldum í Skriðufellsnesi í meðallagi. Svæðið er tíu hektarar og skipulögð 133 stæði fyrir hjólhýsi. Frá því að fyrstu hjólhýsin voru sett upp um 1970 er vitað um nokkur slys vegna gasleka á svæðinu. Tvö banaslys hafa orðið á síðustu árum, annað vegna bruna sem rakinn var til gamalla gaslagna og hitt vegna gasleka. Hingað til hafa ekki verið í boði rafmagnstengingar fyrir hvert hjólhýsi á svæðinu.


Í skýrslunni er rætt um að mesta hættan af gróðureldum í Skriðufellsnesi sé í þurrkatíð á vorin, frá lokum mars og fram í júní en slíkir eldar geti einnig orðið ef mikla þurrkatíð geri á sumrin. Raktar eru helstu orsakir gróðurelda, óvarleg meðferð fólks með eld og híbýlabrunar sem berast í gróður. Í úttektinni var kannað almennt ástand vega, hvernig aðgengi væri að svæðinu, hvort hringtengingar væru fyrir hendi eða botnlangar algengir, læst hlið eða aðrar hindranir fyrir umferð og hvort vegir á svæðinu gætu borið þunga slökkvibíla. Sömuleiðis var gróður á svæðinu skoðaður, þéttleiki hans, hvort þar væri mikil sina, eins aðgangur að vatni, vatnslagnir og nálæg vatnsföll, hversu langt væri milli hjólhýsa, gróður við hjólhýsin og fleira.


Hættan í meðallagi

Niðurstaðan er sú að áhættan í Skriðufellsnesi sé nálægt meðallagi þeirra staða sem kannaðir voru í Bláskógabyggð 2014. Jafnvel þótt svæðið í Skriðufellsnesi sé þéttbýlt og mikið gróið er skóggerð þar hagstæð, lítil sina, sléttlent og fleira sem telst hagstætt með tilliti til brunahættu. Bent er þó á að gas sé mikið notað á svæðinu og meðal mögulegra úrbóta nefnt að markvisst eftirlit með slíkum búnaði geti dregið verulega úr þeirri áhættu og enn frekar ef rafmagn væri lagt að hjólhýsunum þó að raunar sé það svo að algengustu orsakir bruna á Íslandi séu út frá rafmagni. Til að minnka eldhættu eru lagðar til bæði fyrirbyggjandi aðerðir og virkar aðgerðir.

Með fyrirbyggjandi aðgerðum er reynt að minnka líkur á eldsvoða og eins þá hættu sem skapast ef eldsvoði verður. Ef eldur verður laus þarf málum að hafa verið hagað þannig að sem minnstar líkur séu á að hann breiðist út, t.d. með því að minnka gróður í næsta nágrenni við hjólhýsi o.s.frv.  Með virkum aðgerðum er átt við aðgerðir sem auðvelda slökkvistarf, t.d. með því að bæta aðgengi að slökkvivatni, setja upp fleiri klöppur á svæðinu þannig að fólki geti slökkt elda áður en þeir verða illviðráðanlegir og tryggja aðgengi að færanlegum slökkvibúnaði sem kemst um svæðið, t.d. haugsugum.


Tillögur að úrbótum

Í skýrslu Mannvits eru gerðar nokkuð ítarlegar tillögur um úrbætur sem gætu dregið úr hættu á að eldur komi upp og einnig hættu sem yrði ef eldur yrði laus. Bent er á að núverandi vatnsveita anni engan veginn slökkvistarfi og meiri háttar úrbætur í þeim efnum verði dýrar fyrir sveitarfélagið. Þó sé stutt að fara eftir nægu vatni bæði í Hvammsá og Þjórsá. Bent er á að bæta megi forvarnir, setja upp skilti með viðvörunum og einföldum viðbragðsáætlunum sem sýni flóttaleiðir svo eitthvað sé nefnt.

Lagt er til að gerð verði svokölluð söfnunarsvæði sem geri slökkvi- og björgunarstarf markvissara, rafmagnsvæðing geti takmarkað eldhættu vegna gasbúnaðar, fjölga megi hringtengingum á svæðinu og tryggja flóttaleiðir á örugg svæði. Eins geti eigendur hjólhýsa sjálfir gert ýmislegt til úrbóta, haldið gróðri frá hjólhýsunum, komið sér upp klöppum og öðrum slökkvibúnaði, reyk- og gasskynjurum og hugað að flóttaleiðum.

Úrbætur þegar hafnar

Unnið verður úr niðurstöðum skýrslunnar hjá Skógrækt ríkisins og gerð áætlun um hvernig standa skuli að úrbótum á næstu misserum. Rétt er þó að fram komi að Skógrækt ríkisins hefur þegar hafist handa við að bæta öryggi á svæðinu. Síðastliðið sumar var bætt við eldklöppum og slökkvitækjum, fjölgað flóttaleiðum og sagað frá brautum. Þá var leigusamningum og deiliskipulagi á svæðinu breytt fyrir um tveimur árum. Voru m.a. sett ákvæði um að ekki væri heimilt að selja hjólhýsi á stæðum, að gott aðgengi skyldi vera að hverju hjólhýsi og að hjólhýsi skyldu framvegis færð til bifreiðaskoðunar og höfð á númerum. Var talið líklegt að hjólhýsum sem væru skráð með þeim hætti væri almennt haldið í betra ástandi en óskoðuðum gömlum hjólhýsum og þar með gæti dregið úr slysahættu, t.d. vegna gasleka eða útleiðslu í rafmagni. Þessar breytingar mæltust misvel fyrir hjá leigjendum á svæðinu og hafa skiljanlega verið biti að kyngja fyrir marga. Samt sem áður hafa leigjendur þegar endurnýjað töluvert af gömlum hjólhýsum á svæðinu, m.a. vegna þessara ákvæða.


Texti og myndir: Pétur Halldórsson