Hreinn Óskarssonskógarvörður hefur flutt skrifstofu Skógræktar ríkisins í Gunnarsholt á Rangárvöllum. Þar mun Skógræktin deila skrifstofu með Hekluskógum en Hreinn vinnur nú bæði sem skógarvörður á Suðurlandi og verkefnisstjóri Hekluskóga. Skógræktin hefur verið með skrifstofu hjá Búnaðarsambandi Suðurlands á Austurvegi 3 síðan árið 2000, í góðri sambúð með Suðurlandsskógum en þar sem skógarvörður er búsettur á Rangárvöllum var ákveðið að flytja skrifstofuna í Gunnarsholt. Í Gunnarsholti er Landgræðslan með aðalstöðvar og fer vel á því að Skógræktin flytji saman með systurstofnun sinni.