Rannsóknaniðurstöður benda til mikilla jákvæðra áhrifa göngu í skógi á andlega líðan fólks. Andlegt ástand háskólakvenna á þrítugsaldri var mælt fyrir og eftir fjórar mismunandi meðferðir: Rösklega göngu (athletic walking), annars vegar í skógi og hins vegar í líkamsræktarsal, og afslappaða göngu þar sem hugurinn er látinn reika (meditative walking) á sömu stöðum. Röskleg ganga felur í sér markmið sem mæla má í hraða eða tíma en afslöppuð ganga felur í sér að láta hugan reika eða að upplífa umhverfið óháð gönguhraða. Notaðir voru viðurkenndir mælikvarðar á streitu, sjálfsáliti og ánægju til að meta andlega líðan.

Í ljós kom að röskleg ganga hafði fremur lítil áhrif á andlega líðan. Röskleg ganga í skógi jók þó ánægju og minnkaði streitu en áhrifin í sal voru öfug, þ.e. aukin streita og minnkuð ánægja. Afslöppuð ganga í sal hafði áhrif til minnkunar streitu og aukningar á sjálfsáliti og ánægju en þau áhrif voru meiri þegar gengið var í skógi.

Sem sagt, ef markmiðið er að brenna nokkrar kaloríur dugar hugsanlega að fara í ræktina en sé markmiðið jafnframt að losna við streitu og komast í gott skap er betra að fá sér göngutúr í skógi.


Heimild: Scandinavian Journal of Forest Research, janúar 2013.
Texti: Þröstur Eysteinsson
Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir