Grenilundur í Lambafelli, tekið 2021. Mynd: Guðmundur Birgir Smárason
Grenilundur í Lambafelli, tekið 2021. Mynd: Guðmundur Birgir Smárason
Frétt uppfærð 22.02.2022

Í suðaustanverðum undirhlíðum Litla-Meitils í Þrengslunum í Ölfusi, er að finna sitkagrenilund í um 230-250 m hæð yfir sjó. Einar Ólafsson frá Reykjavík ættaður frá Efri-Grímslæk gróðursetti trén á þessum stað í kringum 1958-59. Var á þeim tíma ekki kominn vegur um Þrengsli og þurfti Einar því að bera allt efni á staðinn.

Upphaflega var reiturinn afgirtur en sú girðing er löngu ónýt. Ekki veit heimildamaður nákvæmlega hvaða tegundir voru gróðursettar í upphafi, en í dag er það nær eingöngu sitkagreni sem eftir stendur auk einnar stafafuru. Sami maður gróðursetti einnig trjágróður í Lambafellshálsi sem liggur norðar og hærra í Þrengslunum og má þar enn sjá greni [sjá mynd að ofan]. Greinilegt er af formi trjánna að þau hafa orðið fyrir nokkrum skakkaföllum af völdum snjóbrots, en í dag eru hæstu trén um 6-7 m og margir árssprotar um 30-40 cm. Væri margur skógræktarmaðurinn býsna ánægður með slíkan árangur. Mikið fuglalíf var í skóginum á haustdögum 2002 þegar lundurinn var heimsóttur. Þá var tekin mynd sem hefur glatast á vef Skógræktarinnar. Í staðinn fylgja hér myndir sem Guðmundur Birgir Smárason tók 2021.

Þessi tilraun til skógræktar í Þrengslum sýnir svo ekki verður um villst að stunda má skógrækt með sitkagreni mun hærra yfir sjó svo nálægt hafi en áður var talið. Þess má geta að sé mark takandi á þessari tilraun mætti rækta sitkagreniskóg allt upp að skíðaskálanum í Hveradölum. Þó eru engin áform um slíkt.

Grenilundur í 230-250 metra hæð yfir sjó í suðausturhlíðum í svokölluðu Meitilstagli við Litla-Meitil, tekið 2021. Mynd: Guðmundur Birgir Smárason