Ávöxtun ríflega 12% á ári síðastliðin 25 ár


Svissneskir fjármálaspekingar fullyrða að ræktaður hitabeltisskógur sé einhver besta fjárfesting sem völ er á ef tekið er mið af ávöxtunarmöguleikum í hlutfalli við áhættu. Og tölurnar eru sláandi. Undanfarin 25 ár hefur meðalávöxtunin verið meira en 12 prósent á ári og engin fjárfesting er sögð öruggari. Svissneska fyrirtækið Life Forestry kallar þetta toppfjárfestingu sem sé líka góð fyrir umhverfið og þar að auki gott tækifæri fyrir fjárfesta að sýna samfélagslega ábyrgð. 

Á ræktarlöndum Life Forestry fyrirtækisins í hitabeltinu er ræktað tekk sem er einhver besti harðviður sem völer á. Eftirspurnin er vaxandi og með því að kaupa vottuð standandi tré í slíkum skógi stuðla fjárfestar að því að draga úr sókn manna í harðviðartré í villtum regnskógum. Life Forestry ræktar tekk í Ekvador og á Kostaríka. Þar er stjórnmálaástandið gott og hvergi er friðsælla í Mið-Ameríku en á Kostaríka þar sem herinn var lagður niður eftir borgarastríðið sem þar geisaði um miðbik síðustu aldar. En á þessum slóðum hafa náttúrlegir regnskógar látið mjög á sjá. Skógarnir hafa verið felldir í stórum stíl svo nú er þar mikið landrými á lausu til að rækta upp skóginn á ný.

Á vefsíðu Life Forestry er bent á að fjárfesting sem þessi sé óháð verðsveiflum á markaði, af henni megi hafa skattalegt hagræði og fjármálakreppur hafi ekki áhrif á ávöxtunina. Trjáviður sé sem sagt varinn gegn verðlækkunum, jafnvel á tímum kreppu, og það auki gildi hans sem fjárfestingakosts. Viðmiðið fyrir alþjóðlegar fjárfestingar í skógrækt er vísitala sem kallast „NCREIF Timberland Index“. Samkvæmt henni hafa fjárfestingar í skógi allt frá árinu 1988 ávaxtast mjög vel ef miðað er við verðbréfavísitölu DAX. Meðfylgjandi línurit af vefsíðu Life Forestry sýnir ávöxtun slíkrar fjárfestingar í skógum í samanburði við verð á gulli og þýsku verðbréfavísitöluna DAX sem er vísitala yfir 30 stærstu fyrirtækin í kauphöllinni í Frankfurt. Ef marka má þessar tölur er fjárfesting í ræktuðum skógi mjög fýsileg. Vonandi ýtir það undir meiri ræktun af þeim toga. Ekki er verra ef þetta stuðlar líka að verndun regnskóganna og að skóglendi í hitabeltinu hætti að minnka og fari að stækka á ný. Ef til vill verða markaðsöflin öflugt tæki til að snúa vörn í sókn í skógum heimsins.

Nánar má fræðast um verkefni Life Forestry fyrirtækisins á vefsíðu þess, www.lifeforestry.com.