Landgræðslustjóri vill aukið samstarf við aðrar stofnanir um nýtingu landgræðslusvæða

Árni Bragason, nýráðinn landgræðslu­stjóri, vill fá aðrar stofnanir til sam­starfs um ný­tingu þeirra svæða sem Land­græðslan hefur grætt upp. Í því sam­bandi hefur hann þegar rætt við forsvars­menn Skóg­ræktar­inn­ar um að þróa ákveðin landgræðslu­svæði yfir í skóg.

Rætt var við Árna í Morgun­blaðinu laugar­daginn ­3. september undir fyrir­sögn­inni „Land­græðsla er fæðu­öryggis­mál“. Í við­tal­inu nefnir Árni að enn sé ofbeit á ákveðn­um svæðum landsins og hana þurfi að stöðva. Það megi gera án þess að það komi niður á framboði lambakjöts á innanlands­mark­aði. Árni sér fyrir sér búvöru­samninga til 30 ára þar sem þróuninni yrði snúið við líkt og Þjóð­verjar hafi gert á þýsku heið­un­um með því að draga úr beit í áföngum.

Margvís­leg not segir Árni að megi hafa af landgræðslu­svæð­um og til dæm­is sé þriðj­ungur þess byggs sem fram­leitt er á Ís­landi ræktað á landgræðslu­svæð­um. Sandana við Þorláks­höfn nefnir hann sem dæmi um svæði þar sem hrinda megi af stað verk­efni að fyrir­mynd Heklu­skóga. Hyggst hann kanna hug heimafólks til þess á næstunni.

Helgi Bjarnason blaðamaður ræðir við Árna og viðtalið er á þessa leið:

„Það er fæðuöryggismál að varðveita og byggja upp jarðveg, eins og starf Landgræðslunnar snýst um. Þeim mun betri sem jarðvegurinn er, því betra er að rækta plöntur. Jarðvegurinn og vatnið er verðmætasta eign okk­ar mannfólksins, er okkar gull og demantar, og við getum ekki lifað án,“ segir Árni Bragason sem tók við emb­ætti landgræðslustjóra í vor.

Verkefni Landgræðslunnar eru ærin. Árni segir að Íslendingar hafi tapað miklum jarðvegi í gegnum aldirnar. „Of­beit hefur því miður verið allt of mikil og er enn. Við erum enn að beita svæði sem ekki þola beit. Nú stendur þannig á að við höfum tækifæri til breytinga, vegna offramleiðslu á lambakjöti. Hún er þó ekki meiri en svo að ef við myndum draga úr beit á allra verstu svæðunum værum við samt sem áður með næga framleiðslu til að uppfylla kröfur innanlandsmarkaðar.“

Árni sér fyrir sér búvörusamninga sem tæki til að snúa þróuninni við.„Ég myndi gjarnan vilja að búvöru­samn­ing­ar væru gerðir til lengri tíma, til dæmis 30 ára, og á þeim tíma yrði tekið á þessum vandamálum.

Það er ekki ofbeit alls staðar en það eru vandamál á ákveðnum svæðum. Þau svæði eru þekkt og því hægt að taka á málum með því að létta á beit. Alvarlegustu vandamálin eru á afréttum á gosbeltinu. Þar er enn beit sem ekki ætti að vera. Ég áætla að15-20% af heildarframleiðslu kindakjöts komi af vandamálasvæðum. Með réttu skipulagi væri hægt að leysa málið. Það væri hægt að gera í áföngum með löngum búvörusamningi og gera fólki kleift að fara inn á aðrar brautir. Með þriggja ára samningi, eins og nú er verið að ræða um, er ekki hægt að beita neinni aðlögun, aðeins þvingandi aðgerðum. Þessi mál eru ekki á mínu valdi en ég vona að þingmenn hugsi til lengri tíma.“

Ekki hægt að slaka á

Nefnir Árni að þetta hafi aðrar þjóðir gert. Þjóðverjar hafi til dæmis létt á beit á þýsku heiðunum í áföngum með langtíma samningi.

Spurður um stöðu gróðurreiknings landsins segir Árni að gróðureyðing sé á ákveðnum svæðum. Á móti komi að veðurfar hafi verið hagstætt á undanförnum árum og mörg svæði í framför. Það hjálpi og starf Land­græðsl­unn­ar komi þar til viðbótar. Hann telur að heildarjöfnuðurinn sé jákvæður.

„En það er ekki hægt að halla sér aftur í stólnum. Það eru mörg viðkvæm svæði og lítið þarf til að þróunin verði til verri vegar. Ef við ætlum að ná tökum á öllum þeim svæðum sem eru í hættu tekur það mörg hundruð ár með núverandi fjárveitingum.“

Árni vann lengi að náttúruverndarmálum og segist náttúruverndarsinni. Hann styður hugmyndir um þjóðgarð á miðhálendinu en hefur áhyggjur af framkvæmdinni.

„Ég tel að menn þurfi að hafa varann á. Markmið þjóðgarðs má ekki vera að varðveita það ömurlega ástand sem nú er á afréttum gosbeltisins. Þótt margt gott hafi verið gert þar er land enn að eyðast og lítið þarf til að það fari að blása upp á stórum svæðum. Þetta er manngert ástand, skapað með ofbeit, ekki náttúrulegt.Við stofnun þjóðgarðs þarf að gera ráð fyrir stórfelldri uppgræðslu lands.“

Margvísleg not á landgræðslusvæðum

Árni er að móta stefnuna til framtíðar. Eitt af því sem hann vill innleiða er umræða um markmið með upp­græðslu á hverjum stað fyrir sig. Fá fram framtíðarsýn um notkun þess lands sem verið er að græða upp.

Hann segir að notin geti verið fjölbreytt, bæði til landbúnaðar, skógræktar og annarra nota.

„Það getur verið markmið að nota landgræðslusvæði til akuryrkju. Það hefur verið gert í töluverðum mæli.Til dæmis kemur þriðjungur af bygguppskeru í landinu af landgræðslusvæðum. Það er hluti af fæðuöryggi lands­ins að koma upp góðu akurlendi en það tekur tíma. Landið í kringum Gunnarsholt var gróðurlaus sandur fyrir 60 árum en hér hafa nú verið ræktuð tún, byggakrar, repjuakrar og skógur.

Fólk sem hingað kemur á erfitt með að trúa því að hér hafi verið uppblásið land fyrir tæpum mannsaldri.Sama á við um mörg önnur svæði.

Ég vil gjarnan fá aðrar stofnanir til samstarfs um skipulag og nýtingu landgræðslusvæða, Skógræktina, Umhverfis­stofnun og sveitarfélög. Við eigum þegar í góðu samstarfi við bændur í verkefninu „Bændur græða landið“.

Sum svæðin henta til skógræktar. Ég hef þegar rætt við forsvarsmenn Skógræktarinnar og þeir vilja skoða ákveðin svæði sem við höfum umsjón með en hentar að þróa yfir í skóg. Sveitarfélög þurfa að koma að slíkum áformum því þau fara með skipulagsvaldið.“

Kannar hug fólks í Ölfusi

„Önnur svæði er ef til vill rétt að binda og tryggja að vistkerfin geti þróast eftir eigin lögmálum. Nefna má svæð­ið frá Gunnarsholti að Heklu þar sem unnið er að Hekluskógaverkefninu. Önnur svæði mætti þróa á svipaðan hátt. Sem dæmi má nefna að rækta mætti fjölbreyttan skóg á söndunum við Þorlákshöfn. Búið er að loka sand­inum en eftir er að byggja upp jarðveg til þess að binda vatn og gefa plöntum tækifæri til að dafna. Margir gætu sameinast um það verkefni, eins og í Hekluskógum. Mikilvægt er að heyra sjónarmið íbúanna um það. Ég mun hitta forystumenn sveitarfélagsins Ölfuss á næstunni til að ræða þau mál,“ segir Árni Bragason.

REYNDUR MAÐUR
Náttúruvernd og skógrækt

Árni Bragason var skipaður í embætti landgræðslustjóra frá 1. maí í vor. Hann er líffræðingur og doktor í jurta­erfðafræði. Bakgrunnur hans er í náttúruvernd og skógrækt. Hann var forstöðumaður Rannsóknastöðvar Skóg­ræktar ríkisins á Mógilsá, forstjóri Náttúruverndar ríkisins og forstöðumaður náttúruverndar- og útivistarsviðs Umhverfisstofnunar eftir sameiningu stofnana. Hann vann samtals í 9 ár að stjórnun náttúruverndarstarfs. Hann vann síðan sem forstjóri Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar, NordGen, í Svíþjóð áður en hann tók við starfi landgræðslustjóra. Hann segir að starf þeirrar stofnunar snúist um varðveislu erfðaauðlindar plantna, trjáa og húsdýra. Það sé fæðuöryggismál, eins og landgræðslustarfið á Íslandi. Árni kom ekki inn í neitt tóma­rúm hjá Landgræðslu ríkisins. Sjálfur hefur hann víðtæka reynslu af stjórnun stofnana, náttúruvernd og skóg­rækt, og „er ekki lengur neitt unglamb,“ eins og hann segir sjálfur frá, 63 ára gamall. Hann tók við embætti af Sveini Runólfssyni sem setið hefur einna lengst í embætti hér á landi. „Stofnunin hefur mótast af hans starfi. Sveinn hafði þann eiginleika að geta haldið sér sífellt ferskum og brennandi af áhuga fyrir starfinu. Stofnunin hefur notið þess og andinn hér innanhúss mótast af því,“ segir Árni.