Hér eru tilþrifin sýnd með furur í bökkum
Hér eru tilþrifin sýnd með furur í bökkum

Þrettán manna hópur stofnananna tveggja setti niður tæpar tíu þúsund trjáplöntur

Starfsfólk Skógræktarinnar og Land­græðslu ríkisins á Norðurlandi kom saman á Hólasandi í síðustu viku til að gróðursetja tæplega tíu þúsund trjáplöntur. Þessi gróðursetningardagur er táknrænn fyrir vaxandi samstarf stofnananna tveggja á ýmsum sviðum, ekki síst við skógrækt á uppgræðslusvæðum.

Um þrettán þúsund hektarar lands urðu eyðingaröflunum að bráð á svæðinu norðan Mývatnssveitar sem nú er kallað Hóla­sand­ur áður en svæðið var friðað og girt af 1995. Þarna var áður gróið land með þykkum jarðvegi og undanfarin ár hefur verið unnið að því að klæða svæðið gróðri á ný með samvinnu Landgræðslu ríkisins, Skógræktar­innar, samtakanna Húsgulls og fleiri. Við þær erfiðu aðstæður sem á sandinum eru hefur lúpína reynst vel en einnig er notað melgresi og aðrar grastegundir og auk tilbúins áburðar hafa verið gerðar tilraunir með lífrænan áburð, til dæmis gor og moltu, til að byggja upp næringarefnaforða jarðvegsins.


Rússalerki reynist mjög þrautseigt til á Hólasandi og á stórum svæðum hefur það náð að róta sig og vaxa upp úr berum sandinum að mestu hjálparlaust. Mikið hefur verið sett niður af birki einnig en það er viðkvæmara fyrir þeim mikla næringar­skorti sem er á sandinum og hentar því frekar þar sem einhver gróðurhula hefur náð að myndast áður en það er gróðursett. Þá hafa fleiri tegundir verið reyndar svo sem sitkaölur, balsamösp, víðitegundir og fleira. Hægt og bítandi tekur Hólasandur því á sig grænan lit á ný en halda verður starfinu áfram svo að gróskan sigri auðnina á endanum.

Mánudaginn 25. september komu fjórir starfs­menn héraðsseturs Landgræðslunnar á Húsavík saman á Hólasandi ásamt fimm starfsmönnum skógarvarðar Skógræktarinnar á Vöglum og fjórum frá Akureyrarskrifstofu Skógræktarinnar til að gróðursetja tæplega tíu þúsund trjáplöntur, aðallega lerki en einnig nokkur hundruð stafafuruplöntur. Bjart var og milt veður miðað við árstíma og gróðursetningin gekk fljótt og vel.


Að gróðursetningunni lokinni var farið um sandinn og litið á árangurinn á nokkrum stöðum, til dæmis á gömlu túni sunnarlega á svæðinu þar sem nú standa a.m.k. þriggja metra há lerki- og furutré. Litið var á tilraunir sem Skógræktin og Landgræðslan vinna að með notkun moltu til skóggræðslu á beru landi og farið í Fagradal norður undir Lambafjöllum þar sem lúpínan er farin að hörfa og gras og aðrar plöntutegundir farnar að taka við.

Þátttakendur í þessu sameiginlega átaki voru þau Daði Lange, Sigríður Þorvalds­dóttir, Þorlákur P. Jónsson og Þór Kárason frá Landgræðslunni og frá Skógrækinni þau Benjamín Örn Davíðsson, Bergsveinn Þórs­son, Brynjar Skúlason, Lars Nilsen, Pétur Halldórsson, Rakel Jónsdóttir, Rúnar Ís­leifsson, Valgeir Davíðsson og Þuríður Davíðsdóttir. Haft var á orði að gera yrði slíkan gróðursetningardag að árlegri venju og setja enn fleiri plöntur niður að ári.

Brynjar Skúlason og Daði Lange ræða málin kampakátir. Benjamín Örn Davíðsson
og Bergsveinn Þórsson næla sér í plöntubakka í bakgrunni.Texti og myndir: Pétur Halldórsson