Starfsfólk Skógræktarinnar í skoðunarferð um einn af þjóðskógunum, Kristnesskóg í Eyjafirði.
Starfsfólk Skógræktarinnar í skoðunarferð um einn af þjóðskógunum, Kristnesskóg í Eyjafirði.

Vel yfir meðallagi í öllum mældum þáttum

Skógræktin lenti í sjöunda sæti af 86 ríkisstofnunum með 50 starfsmenn eða fleiri í valinu á stofnun ársins 2017. Stofnunin er vel yfir meðallagi í öllum þeim þáttum sem spurt var um í könnuninni.

Gallup vann könnunina og hún var með sambærilegu sniði í ár og fyrri ár og um hana sér fjármála- og efnahagsráðuneytið í samstarfi við SFR. Spurningalisti var lagður fyrir starfsfólk um 200 stofnana. Fólk var innt eftir mati á innra starfsumhverfi stofnunar sinnar með mælingu á níu mismunandi þáttum í starfsumhverfi stofnana. Með því að láta mælinguna ná til margra þátta er talin fást heilsteypt mynd af innra starfsumhverfi þeirra.

Lagt var mat á stjórnun og starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti. Einkunnir starfsfólks Skógræktarinnar eru nokkuð jafnar fyrir öll þessi atriði en hæstar þegar spurt er um starfsumhverfi, sveigjanleika vinnu, ánægju og stolt.

Í efsta sæti varð Reykjalundur með 4.458 stig, því næst Ríkisskattstjóri með 4.431 stig, þá Fjölbrautaskóli Suðurnesja með 4.421 stig, ÁTVR með 4.321 stig, Heilsustofnun NLFÍ með 4.290 stig, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins með 4.269 stig og  Skógræktin með 4.264 stig. Meðaltals heildareinkunn allra stofnananna var 3.870 stig.

Gallup kannar á hverju ári fyrir SFR og ráðuneytið viðhorf starfsmanna ríkisstofnana til vinnuveitanda síns. Út frá því eru útnefndar stofnanir ársins í þremur stærðarflokkum en einnig hástökkvari ársins og fyrirmyndarstofnanir fá viðurkenningu. Haft er samband við þá starfsmenn sem verið hafa í hálfu starfi eða meira undanfarna fjóra mánuði. Niðurstöður úr könnuninni Stofnun ársins 2017 voru kynntar 11. maí.

Nánar má glöggva sig á úrslitunum á vef SFR.

Texti: Pétur Halldórsson