Heimsdagur IUFRO, alþjóðasamtaka skógrannsóknarstofnana, verður haldinn 28.-29 september. Á dagskránni eru m.a. margvíslegar kynningar á verkefnum sem tengjast skógrannsóknum vítt og breitt um heiminn. Klukkan 13.45 fyrri daginn flytur Edda Sigurdís Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs Skógræktarinnar, erindi um áskoranir og tækifæri sem felast í nýskógrækt sem loftslagsaðgerð í trjálausu landi.

Erindi Eddu nefnist á ensku Afforestation for climate mitigation - challenges and opportunities in a treeless land. Erindið er kynnt með sérstöku fundarkorti eins og ótal sambærilegar kynningar eða fundir á þessum heimsviðburði IUFRO. Skoða má og hlaða niður kortum sem fólk hefur áhuga á með því að fara inn á síðu um samhliða viðburði á vef IUFRO.

Á gagnvirku heimskorti sem enn er í vinnslu verður hægt að smella á alla viðburði þegar líður að heimsdegi IUFRO og rata t.d. á erindi Eddu. Þar verður með auðveldum hætti hægt að fara á milli viðburða sem eru í gangi samtímis en einnig verður hægt að sía viðburði eftir áhugasviðum hvers og eins.

Texti: Pétur Halldórsson