Svandís Svavarsdóttir, þá umhverfisráðherra, í heimsókn í þjóðskóginn í Þjórsárdal ásamt fríðu förun…
Svandís Svavarsdóttir, þá umhverfisráðherra, í heimsókn í þjóðskóginn í Þjórsárdal ásamt fríðu föruneyti í nóvember 2009. Hún er nú á ný ráðherra skógarmála á Íslandi. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson

Með nýsamþykktum stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar flytjast málefni skógræktar og þar með Skógræktarinnar yfir í nýtt matvæla- sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Í sáttmálanum er rætt um hvata til aukinnar skógræktar og vottaðar kolefniseiningar í landbúnaði og annarri tengdri landnotkun. Svandís Svavarsdóttir er nýr ráðherra skógarmála.

Í stjórnarsáttmálanum segir að efla verði náttúrumiðaðar lausnir í loftslagsbaráttunni, meðal annars með hvötum til aukinnar skógræktar. Efla þurfi landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis til að mæta skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum. Í kafla um loftslagsmál segir meðal  annars að vísindaleg þekking sé undirstaða allra aðgerða stjórnvalda í loftslagsmálum. Þar stendur orðrétt:

Sett verða metnaðarfull markmið um samdrátt í losun vegna landnotkunar og áhersla lögð á að efa náttúrumiðaðar lausnir, m.a. með hvötum til aukinnar skógræktar, landgræðslu og endurheimt votlendis. Efla þarf rannsóknir á losun og bindingu kolefnis vegna samspils landnýtingar og loftslagsmála.

í kafla um landbúnað kemur fram að tillaga um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland verði lögð fram á Alþingi á fyrri hluta kjörtímabilsins. Þar verði byggt á grunni vinnu verkefnisstjórnar um landbúnaðarstefnu, „Ræktum Ísland“, sem liggur fyrir frá síðasta kjörtímabili. Samhæfa á stuðning hins opinbera með það að markmiði að styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun. Þar kemur þetta fram um skógræktarmál:

Efla þarf landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis til að mæta skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum. Útfærður verður rammi um framleiðslu vottaðra kolefniseininga í landbúnaði og annarri tengdri landnotkun.

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, tók í dag við nýju embætti ráðherra matvæla-, sjávarútvegs- og landbúnaðarmála. Þar sem skógræktarmál flytjast nú frá umhverfisráðuneytinu til þessa nýja ráðuneytis Svandísar er hún þar með nýr ráðherra skógarmála. Hún er ekki með öllu ókunn þeim málaflokki því hún sat í stóli umhverfisráðherra á árunum 2009-2012 og umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013. Skógræktin óskar henni til hamingju með embættið og hlakkar til samstarfsins.

Texti: Pétur Halldórsson