Frá starfsmannafundi Skógræktarinnar á Hótel Selfossi í janúar 2019. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Frá starfsmannafundi Skógræktarinnar á Hótel Selfossi í janúar 2019. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Skógræktin lenti í fimmta sæti í flokki stórra stofanana á vegum ríkisins í mati Sameykis á stofnun ársins 2019 og hlýtur því sæmdartitilinn fyrirmyndarstofnun 2019. Stofnunin er framarlega í öllum atriðum sem metin voru nema einna helst í því sem snertir launakjör.

Sameyki stéttarfélag varð til í byrjun ársins við sameiningu Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og SFR stéttarfélags í almannaþjónustu. Bæði þessi eldri félög hafa gert kannanir og valið stofnanir ársins og nú birtist fyrsta sameiginlega könnunin sem áfram er skipt eftir því hvort stofnun tilheyrir sveitarfélagi eða ríkinu.

Einkennismerki fyrirmyndarstofnana 2019Niðurstöður úr könnuninni Stofnun ársins 2019 hjá SFR voru kynntar 15. maí á Hilton Reykjavík Nordica að viðstöddu fjölmenni. Í könnun Sameykis eru sem fyrr segir tveir flokkar, annars vegar stofnanir á vegum sveitarfélaga og hins vegar stofnanir á vegum ríkisins. Stofnunum á vegum sveitarfélaga var skipt í tvennt eftir því hvort starfsmenn voru færri eða fleiri en fimmtíu. Stofnunum á vegum ríkisins var skipt í litlar, meðalstórar og stórar stofnanir, allt að 20 starfsmenn, 20-50 starfsmenn eða fleiri en 50 starfsmenn. Valin var stofnun ársins í hverjum stærðarflokki, bæði hjá ríki og bæ, og einnig tveir hástökkvarar ársins, annar hjá ríki og hinn hjá bæ. Þær stofnanir sem lenda í efstu sætunum meðal ríkissstofnana hljóta sæmdarheitið fyrirmyndarstofnanir og eru fimm efstu í flokki stórra stofnana útnefndar fyrirmyndarstofnanir en þrjár í flokkum meðalstórra og lítilla stofnana. Skógræktin er því fyrirmyndarstofnun árið 2019.

Í flokk stofnana sveitarfélaga falla vinnustaðir Reykjavíkurborgar, Akraness og Seltjarnarness, sem áður tilheyrðu Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Í flokk ríkisstofnana falla ríkisstofnanir, sjálfseignar­stofnanir og fleiri stofnanir sem féllu undir SFR áður. Auk þess fengu Fyrirmyndarstofnanir viðurkenningu og Hástökkvari ársins.

Skógræktin er í fremstu röð í atriðum sem snerta stjórnun, starfsanda og vinnuskilyrði, sveigjanleika í vinnu, ánægju og stolt og jafnrétti. Það eru helst launakjör sem draga einkunn stofnunarinnar niður og einnig fengu þær stofnanir sem ofar lentu allar enn betri einkunn en Skógræktin fyrir stjórnun.

Allar ríkisstofnanir sem eru þátttakendur í könnuninni fá senda skýrslu með niðurstöðum svo fremi sem skilyrði um lágmarkssvörun sé uppfyllt (35% þátttaka). Öðrum þátttökustofnunum gefst kostur á að kaupa skýrslu frá Gallup fyrir sína stofnun, svo framarlega sem skilyrði um svörun sé uppfyllt. Í skýrslunni er gerð ítarleg greining á niðurstöðum könnunarinnar. Þar eru m.a. bornar saman meðaltalseinkunnir hverrar spurningar hjá viðkomandi stofnun við meðaltalseinkunn allra stofnana. Einnig eru breytingar frá síðustu mælingu skoðaðar þegar það á við. Kannanir sem þessi gagnast stjórnendum því vel við að greina styrk­leika og veikleika í starfsemi sinni og vinna að úrbótum þar sem þörf er á.

Fulltrúar þeirra stofnana sem fengu viðurkenningu að þessu sinni. Edda Sigurdís Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs Skógræktarinnar, þriðja frá hægri. Mynd: Sameyki.

Texti: Pétur Halldórsson