Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri handsala samning…
Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri handsala samning um kolefnisskóga sem Skógræktin tekur að sér að rækta næstu tíu árin á þremur hekturum lands á ári.

Ræktaður verður skógur á þremur hekturum árlega næstu tíu árin

Skógræktin tekur að sér að rækta skóg og binda kolefni fyrir Faxaflóahafnir samkvæmt samstarfssamningi sem undirritaður var í dag. Ræktaður verður skógur á landi Faxa­flóahafna að Klafastöðum í Hvalfjarðar­sveit og á jörðum í umsjón Skógræktarinnar. Með þessari skógrækt verður kolefni bund­ið í skógi til næstu fimmtíu ára á móti því sem losnar vegna reksturs Faxaflóahafna.

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri undir­ritaði samninginn fyrir hönd Skóg­ræktar­inn­ar en Gísli Gíslason hafnarstjóri fyrir hönd Faxaflóahafna. Sem fyrr segir verður byrj­að að gróðursetja að Klafastöðum en þeg­ar fullgróðursett verður í það land er ætlunin að gróðursetning fyrir Faxaflóahafnir fari fram á  landi í umsjón Skóg­ræktarinnar á Vesturlandi.

Samkvæmt samningnum lætur Skógræktin framkvæma öll verk sem nauðsynleg eru til að koma skóginum upp, sér um gerð ræktunaráætlunar, nauðsynlega friðun lands, nauðsynlega slóðagerð, undirbúning gróðursetningar (jarðvinnslu) plöntukaup, flutning plantna, gróðursetningu, áburðargjöf, íbætur, eftirlit og úttektir. Faxaflóahafnir eiga skóginn sem ræktaður verður á landi í þeirra eigu en Skógræktin eignast þann skóg sem vex upp á löndum í umsjón hennar.


Gert er ráð fyrir í samningnum að Faxa­flóa­hafnir greiði 1,5 milljónir króna árlega fyrir gróðursetningu í allt að 3 hektara á ári næstu tíu árin. Skógræktin skilar Faxaflóa­höfnum skýrslu í lok hvers árs þar sem fram kemur framvinda gróðursetninga og áætluð kolefnisbinding.Í viðauka­samn­ingi sem einnig var undirritaður í dag er kveðið á um að Skógræktin veiti ráðgjöf vegna eldri skógar á Klafastöðum.

Skógræktin hefur áður gert hliðstæða samn­inga um kolefnisbindingu með skóg­rækt og þar ber helst að nefna þrjá samn­inga við Landsvirkjun sem eru með svipuðu sniði og sá sem nú hefur verið gerður við Faxaflóahafnir. Fleiri hafa sýnt áhuga á að fela Skógræktinni bindingu á móti þeirri losun sem verður vegna viðkomandi starfsemi og einnig er skemmst að minn­ast samnings Skógræktarinnar við nýstofnað félag, Landsskóga, sem hyggst bjóða fyrirtækjum í ferðaþjónustu og öðrum atvinnugreinum að binda kolefni í skógi og fela Skógræktinni framkvæmdina.

Meðfylgjandi myndir tók Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógarauðlindasviðs Skógræktarinnar, við undirritun samninganna í dag milli Skógræktarinnar og Faxaflóahafna.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir