(mynd: Þór Þorfinnsson)
(mynd: Þór Þorfinnsson)

Þingsályktunartillaga lögð fram á Alþingi


Lögð hefur verið fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um eflingu skógræktar sem atvinnuvegar og sameiningu stjórnsýslueininga á sviði skógræktar og landgræðslu. Lagt er til að skógrækt verði stórefld sem arðsamur atvinnuvegur, Skógræktin, Landgræðslan og landshlutabundnu skógræktarverkefnin verði sameinuð í eitt, ný lög samin um skógrækt og landgræðslu og gerð rammaáætlun til þriggja ára um eflingu skógræktar.

Flutningsmenn tillögunnar eru sex stjórnarþingmenn, þeir Jón Gunnarsson, Haraldur Benediktsson, Vilhjálmur Árnason, Vilhjálmur Bjarnason, Ásmundur Friðriksson og Höskuldur Þórhallsson. Þeir leggja til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að efla skógrækt á Íslandi sem arðsaman atvinnuveg með því að stórefla hagnýtar rannsóknir og þróunarstarf í skógrækt með áherslu á framleiðslu viðarafurða, framleiðni og arðsama skógrækt. Skógrækt ríkisins, Landgræðsla ríkisins og landshlutaverkefni í skógrækt verði færð í eina stjórnsýslueiningu, samið frumvarp að nýjum samræmdum lögum um skógrækt og landgræðslu og mótað starfsumhverfi með rammaáætlun til þriggja ára til eflingar skógrækt með þátttöku bænda, annarra landeigenda og sérstakra skógræktarsjóða.

Í greinargerð með tillögunni er bent á að þrennt hafi öðru fremur hindrað fjárfestingu einkaaðila í nytjaskógrækt hér á landi. Það sé í fyrsta lagi langur biðtími frá fjárfestingu til þess sem kallað er í greinargerðinni tekjugæf nýting. Í öðru lagi sé það óvissa um markað fyrir afurðirnar og í þriðja lagi vantrú á að skógrækt í norðlægu, skóglausu landi geti skilað arði. Lagt er til að fjárfestar fái, að minnsta kosti tímabundið, skattaívilnun ef þeir leggja fé í viðurkenndan skógræktarsjóð. Þetta verði gert til að hvetja fjárfesta til að leggja fé til skógræktar. Þá megi gera bændum kleift að leigja land til skógræktar í langan tíma og það geti dregið úr þörfinni fyrir landbúnaðarstyrki. Lífeyrissjóðum megi líka bjóða gróðursetningarstyrk, tiltekna upphæð á hektara.

Rætt er í greinargerðinni að lög um skógrækt og landgræðslu séu úrelt og þau þurfi að endurskoða en einnig að styrkja verði og samhæfa stjórnsýslu þessara greina að ná markmiðum um eflingu skógræktar og landbóta. Þingmennirnir vilja að auknu fé verði varið til skógræktar og að það fé komi ekki eingöngu úr opinberum sjóðum. Hraða þurfi endurreisn skógarauðlindar á Íslandi í þágu lands og þjóðar, efla rannsóknir og þróunarstarf í skógrækt og byggja með þessu upp nýjar atvinnugreinar, efla byggð og treysta búsetu í landinu.

Ályktunina má lesa í heild á vef Alþingis: http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=143&mnr=211