Nú er hafinn flutningur á sauðfé á Almenninga. Það er afréttur norðan Þórsmerkur, sem er ein helsta náttúruperla og ferðamannaparadís landsins. Afrétturinn, sem talinn er óbeitarhæfur í nýlegri skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands, er ekki girtur af og getur sauðfé því runnið óheft inn á Þórsmörk, Goðaland og önnur friðlönd sem gróin eru birkiskógi eða eru að gróa. Hætta er á að slík beit skaði margra áratuga starf sjálfboðaliða og stofnana við endurheimt birkiskóga og gróðurs á Þórsmerkursvæðinu. Birkiskógar eru það vistkerfi sem þolir hvað best öskufall og því afar brýnt fyrir framtíðina að klæða land í nágrenni eldfjallanna Kötlu og Eyjafjallajökuls skógi og kjarri.

Þórsmörk var friðuð af Fljótshlíðarbændum og falin Skógrækt ríkisins til umsjár árið 1919. Afrétturinn Goðaland bættist við friðlandið árið 1927. Hefur síðan verið unnið að endurheimt birkiskóga, en skógar á svæðinu voru nánast eyddir þegar landið var beitarfriðað, og ógnaði uppblástur skógartorfunum sem eftir voru. Um 1990 girti Landgræðsla ríkisins stærri girðingu eftir samninga við afréttarhafa sem friðaði Almenninga og aðra afrétti á svæðinu s.s. Stakkholt og Steinsholt. Þegar friðlandið var stækkað árið 1990 var gamla skógræktargirðingin um Þórsmörk fjarlægð, enda var hún afar dýr í viðhaldi og orðin óþörf.

Hafa birkiskógar breiðst mjög út í kjölfar friðunarinnar árið 1919 og er Þórsmerkursvæðið eitt best heppnaða endurheimtarverkefni birkiskóga á Íslandi og einn af vinsælli ferðamannastöðum á landinu. Á undanförnum 20 árum hefur birkinýgræðingur enn frekar breiðst út á rofnu landi í nágrenni Þórsmerkur og verið að fikra sig inn á afréttina umhverfis. Það er þó ferli sem tekur marga áratugi og á meðan nýgræðingurinn er lágvaxinn ver hann sig ekki fyrir beit. Þá hafa bændur undir vestur Eyjafjöllum unnið að uppgræðslu á Almenningum, en það er einnig ferli sem tekur áratugi áður en gróðurinn þolir beitarálag.

Nokkrir sauðfjárbændur kæra sig þó kollótta um það. Þeir segjast hafa rétt til að nýta þetta land til beitar samkvæmt hefð og telja hana mikilvægari en t.d. endurkomu birkis á svæðinu eða hvort landið sé yfir höfuð beitarhæft. Það voru landeigendur á Fornusöndum og Nýjabæ sem riðu á vaðið og fluttu fé á svæðið þann 20. júlí. Ljóst er að þetta fé mun sækja beint í birkinýgræðinginn á svæðinu m.a. á Þórsmörk og skaða þar með stórlega áratugalangt starf sem unnið hefur verið af ríkisstofnunum og sjálfboðaliðum. Skógrækt ríkisins mótmælir harðlega upprekstrinum og telur skynsamlegra fyrir upprekstrarhafa að halda áfram uppgræðslu landsins og beitarfriðun þar til það er skógi vaxið.