Skógrækt ríkisins ákvað að reikna út hversu stóran hluta af skóglendum sínum hún þyrfti að telja fram til kolefnisbindingar svo rekstur hennar geti talist kolefnishlutlaus.  Þetta getur hver sem er gert sem heldur sæmilegt bókhald.  Gunnlaugur Guðjónsson fjármálastjóri tók saman tölur fyrir árið 2006 um bensín- og dísilolíukaup á alla bíla og allar vélar stofnunarinnar, kílómetrafjöldi sem stofnunin greiddi fyrir vegna notkunar einkabíla og bílaleigubíla og kílómetrar í flugi á vegum stofnunarinnar.   

Skógrækt ríkisins er með stafsemi um land allt og því fylgir talsverður akstur.  Aðalskrifstofa Skógræktarinnar er á Egilsstöðum og því er mikið um flug milli Egilsstaða og Reykjavíkur auk þess sem stofnunin er fyrir Íslands hönd í bæði norrænu og alþjóðasamstarfi á sviði skógræktar og því um allmiklar flugferðir til útlanda að ræða.  Niðurstaðan var að Skógrækt ríkisins notaði 53.000 lítra af dísilolíu, 19.000 lítra af bensíni, greiddi auk þess fyrir 62.000 mílna akstur einka- og bílaleigubíla og fyrir 224.000 mílur í flugi.    Þessar tölur voru settar inn í reiknivél sem finna má á: http://www.nef.org.uk/energyadvice/co2calculator.htm (þar eru vegalengdir reiknaðar í mílum og því þurfti að umreikna km í enskar mílur).  Niðurstaðan var sú að rekstur Skógræktar ríkisins losaði um 273 tonn af CO2 árið 2006.  Úr mælingum Arnórs Snorrasonar og félaga á Rannsóknastöð Skógrækar rikisins á Mógilsá vitum við að meðalbinding CO2 í ræktuðum íslenskum skógum er 4,4 tonn á hektara á ári. Með því að deila með þeirri tölu í 273 tonna losun kemur út að 62 hektarar skóglendis dugðu til að binda CO2 losun Skógræktar ríkisins 2006. Kolefnisbinding með skógrækt hefur hins vegar mælst allt að 23 tonn á hektara á ári hérlendis, þ.e. með alaskaösp á frjósömu landi. Skógrækt ríkisins þyrfti aðeins 12 hektara af slíkum skógi til að vera kolefnishlutlaus.   Einhverjar sveiflur eru á rekstrinum og kolefnisbindingu skóga ár frá ári, en 80 hektarar ræktaðs skógar duga örugglega til að binda alla árlega losun Skógræktar ríkisins á CO2. Á meðfylgjandi mynd af Haukadalsskógi má sá þessa landstærð. Miðað við meðalbindingu dugar u.þ.b. 1/7 af Haukadalsskógi til að binda allan þann koltvísýring sem rekstur Skógræktar ríkisins losar. Sé miðað við að hámarka bindinguna dugar hins vegar land sem er aðeins lítið brot af flatarmáli skógarins. Auk 8500 hektara af náttúrulegum birkiskógi eru í löndum Skógræktar ríkisins alls um 4000 hektarar af ræktuðum skógi. Kolefnisbindingin á 3920 þeirra er til sölu hæstbjóðanda.