Sjálfbærni tvíþættur ávinningur fyrir skógariðnaðinn

Markaðir með skógarafurðir í heiminum blómstra um þessar mundir og spáð er enn meiri vexti á næsta ári jafnvel þótt hömlur á viðskiptum með timbur milli landa valdi nokkrum áhyggjum í timburiðnaðinum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem gefin var út á Las2017, sameiginlegum fundi skógaráðs Sameinuðu þjóðanna, efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu og skógaráðsins fyrir Evrópu hjá FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ.

Í umræðum um markaðsmál á Las2017-fundinum héldu sérfræðingar fyrirlestra og beindu sjónum að þeirri afurðaþróun sem nú er í gangi. Áberandi var í umræðunni hversu mikilvægt þykir að auka nýtingu viðarafurða til ýmiss konar framleiðslu, bæði til að hamla gegn loftslagsbreytingum og til að uppfylla sívaxandi óskir fólks um að geta lifað sjálfbærara lífi. Timburhús geta geymt mikið magn koltvísýrings um langan aldur. Auk þess hefur smíði timburbygginga sáralitla koltvísýringslosun í för með sér öfugt við stál- og steinsteypubyggingar. Iain Macdonald, sérfræðingur um timburháhýsi, benti á að fimm sinnum meiri orku þyrfti til að framleiða tonn af steinsteypu og tuttugu og fjórum sinnum meiri orku að framleiða tonn af stáli samanborið við tonn af viði.

Werner Kurz, vísindamaður með sérþekkingu á kolefnisbókhaldi, benti á að um allan heim legðu menn nú verulegar fjárhæðir í þróun aðferða og tækni til að beisla kolefni. Eftir sem áður væri þó árangursríkasta leiðin til að binda koltvísýring að rækta skóg og binda kolefni til langs tíma í viðarafurðum sem lengi eiga að standa í stað þess að nota hráefni sem útheimta mikla kolefnislosun. Um þetta var samhljómur meðal sendifulltrúa á Las2017-fundinum, fulltrúa skógariðnaðarins og hagsmunaaðila.

Fulltrúar á fundinum voru sammála um að sjálfbær skógrækt og sjálfbær nýting skógarafurða fæli í sér tvíþættan ávinning fyrir skógariðnaðinn sem gæti áfram blómstrað en um leið lagt sitt til sjálbærni í neyslu og framleiðslu.


Hlekkir á tengt efni