Í umhverfiskönnun Gallups 2018 var fólk beðið að nefna þrjú atriði sem það vildi að hið opinbera set…
Í umhverfiskönnun Gallups 2018 var fólk beðið að nefna þrjú atriði sem það vildi að hið opinbera setti í forgang á sviði umhverfismála á næstu misserum. Þar lenti aukin skógrækt í þriðja sæti á forgangslistanum. Súlurit úr niðurstöðum könnunarinnar

Í könnun umhverfiskönnun Gallups 2018 sem kynnt var fyrir helgi kemur í ljós að tæpur helmingur svarenda vill að stjórnvöld hvetji til eða efli skógrækt til þess að draga úr uppsöfnun gróður­húsa­loft­teg­unda í andrúmslofti. Af þeim aðgerðum sem svarendur sögðust vilja að hið opinbera setti í for­gang á sviði umhverfis- og loftslagsmála nefndu flestir að draga ætti úr losun, næstflestir að auka ætti ívilnanir við kaup á vistvænum bílum og í þriðja sæti kom aukin skógrækt.

Eins og fram kemur í inngangi niðurstaðna könnunarinnar hefur Gallup kannað afstöðu landsmanna til loftslagsbreytinga og umhverfismála á síðastliðnum tveimur árum með það fyrir augum að varpa ljósi á viðhorf Íslendinga til þessara mála. Lagðar hafa verið fyrir fólk spurningar um líðan, viðhorf og nú hegðun til þess að kanna hvað það er sem landsmenn vilja að stjórnvöld og fyrirtæki taki til bragðs svo gera megi betur.

Aðeins hálft prósent aðspurðra sagðist hafa ræktað skóg, þegar spurt var hvort fólk hefði gert eitthvað síðasta árið til að draga úr þeim áhrifum sem það hefði á umhverfis og loftslagsbreytingar  Í niðurstöðunum má sjá að flestir landsmenn, tæp 63 prósent, hafa breytt hegðun sinni á ein­hvern hátt undanfarið ár til að minnka áhrif sín á umhverfi og loftslag. Um helmingur segist hafa breytt neysluvenjum af sömu ástæðu. Aukin umræða, fréttaumfjöllun og fræðsla virðist sam­kvæmt könnuninni vera það sem helst olli því að fólk vildi breyta um háttu. Greinilegur vilji er til að gera betur, til dæmis í flokkun úrgangs, og flestir Íslendingar ætla sér að ná enn betri árangri í þeim efnum. Endurvinnslumál lentu efst á listanum um æskileg verkefni sveitarfélaga.

58,2 % svarenda vilja að stjórnvöld gangist fyrir því að dregið verði úr losun gróður­húsa­loft­teg­unda. 46,8% svarenda vilja að stjórnvöld hvetji til eða efli skógrækt til þess að draga úr uppsöfnun GHL í andrúmslofti. Athygli vekur aftur á móti að á síðasta ári skuli einungis 0,5% svarenda hafa lagt hönd á plóg við skógrækt í þeim tilgangi að draga úr eigin áhrifum á umhverfis- og lofts­lags­breyt­ing­ar. Af því mætti ætla að efla þyrfti tækifæri landsmanna til að vinna að skógrækt.

 Texti: Pétur Halldórsson