Hólaskógur í Hjaltadal síðla í júní 2015. Mynd: Pétur Halldórsson.
Hólaskógur í Hjaltadal síðla í júní 2015. Mynd: Pétur Halldórsson.

Losun verður minnkuð um 40% til ársins 2030 frá því sem var 1990

„Við höfum ýmis tækifæri til að minnka losun og auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti. Skógrækt og landgræðsla er mikilvægur þáttur í okkar loftlagsstefnu.“ Þetta sagði Hugi Ólafsson, formaður samninganefndar Íslands í loftslagsmálum, í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins í tilefni af því að í gær tilkynntu íslensk stjórnvöld Sameinuðu þjóðunum að þau ætluðu að taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsríkjanna og Noregs, um að minnka losun um fjörutíu prósent til ársins 2030, miðað við árið 1990.

Frétt Ríkisútvarpsins er á þessa leið:

Íslensk stjórnvöld geta meðal annars notað skógrækt og landgræðslu til að taka þátt í sameiginlegum loftslagsmarkmiðum með Evrópusambandsríkjunum og Noregi. Markmiðin eru að minnka losun um fjörutíu prósent á næstu fimmtán árum, miðað við árið 1990.

Tilraunir alþjóðasamfélagsins til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hafa gengið brösuglega, og loftslagsfundur sem haldinn var í Kaupmannahöfn árið 2009 rann að mestu út í sandinn. Nú á að reyna aftur í París í desember, á 21. aðildarþingi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Í þetta sinn fá ríki heims að sýna spilin áður en þau setjast að samningaborðinu, í þeirri von að þingið skili meiri árangri.

Íslensk stjórnvöld tilkynntu Sameinuðu þjóðunum í dag að þau ætla að taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsríkjanna og Noregs, um að minnka losun um fjörutíu prósent til ársins 2030, miðað við árið 1990. Það þýðir þó ekki að Íslendingar minnki losun sína sem því nemur, því Evrópuríkin eiga eftir að semja um það sín á milli hver skiptingin verður.

„Það eru öll ríki heims mjög háð jarðefnaeldsneyti í sínu efnahagslífi en þetta er einfaldlega verkefnið, að reyna að draga úr losun þess og auka endurnýjanlega orku, finna loftslagsvænar lausnir. Og þetta samkomulag í París á að ýta á okkur að finna loftslagsvænni lausnir án þess að við þurfum að draga úr okkar lífsgæðum,“ segir Hugi Ólafsson, formaður samninganefndar Íslands í loftslagsmálum.

Losun gróðurhúsategunda á Íslandi var nærri fimm milljónir tonna þegar hún var mest árið 2008. Hún hefur síðan dregist nokkuð saman. Sé þetta sameiginlega evrópska markmið yfirfært á Ísland, þá mætti gera ráð fyrir að losunin árið 2030 verði rúmlega tvær milljónir tonna. Landsmarkmið Íslands er tvíþætt, annars vegar með viðskiptakerfi með losunarkvóta, sem fyrirtæki bera mesta ábyrgð á, til dæmis stóriðjan, og síðan þættir sem stjórnvöld geta haft áhrif á.

Við höfum ýmis tækifæri til að minnka losun og auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti. Skógrækt og landgræðsla er mikilvægur þáttur í okkar loftlagsstefnu. En við sjáum til dæmis í samgöngum að rafbílar eru að koma mjög sterkt inn. Það eru líka mörg tækifæri til dæmis varðandi skip, mörg íslensk nýsköpunarfyrirtæki sem hafa verið að kynna áhugaverðar lausnir um að minnka losun frá skipum,“ segir Hugi.