Út er komin á vegum Sameinuðu þjóðanna skýrslan: Forest and Economic Development: A driver for the green economy in the ECE region (Skógur og efnahagsþróun: Drífandi afl í græna hagkerfinu á ECE svæðinu).

Í skýrslunni eru teknar saman þær fjölmörgu leiðir sem skógar stuðla að efnahagsþróun á ECE svæðinu (Evrópa, þ.m.t. allt Rússland, auk Bandaríkjanna og Kanada). Á grundvelli nýrra rannókna á vegum ECE og FAO er greint frá horfum og helstu áskorunum fyrir skógræktargeirann á svæðinu, þ.m.t. um viðarorku, sjálfbærni timburframleiðslu, starfslið skógræktargeirans, greiðslur fyrir vistkerfisþjónustu skóga, nýsköpun og hvernig hægt sé að sanna og greina frá sjálfbærni skógræktar. Niðurstaða skýrslunnar er að hvetja til þess að skógar, ásamt afurðum þeirra og vistkerfisþjónustu, verði lykilþættir í gæna hagkerfi ECE landa. Í þessu felast miklir möguleikar fyrir skógræktargeira ECE landa. Loks er í skýrslunni grunnur að aðgerðaráætlun sem dregur fram hvernig skógræktargeirinn geti orðið þungamiðja græna hagkerfisins og hvernig hann geti mætt þeim áskorunum sem slíkt felur í sér.

Skýrslan er í mjög góðu samræmi við nýja stefnumótun skógræktar á Íslandi, Skógar á Íslandi: stefna á 21. öld, og styður öll áhersluatriði sem í stefnuni koma fram. Áherslur hér á landi um að auka útbreiðslu skóga og að efla bæði nýtingu þeirra á hagrænum forsendum og vistkerfisþjónustu þeirra, t.d. kolefnisbindingu, eru í góðu samræmi við hugmyndafræði græna hagkerfisins.


Forest and Economic Development: A driver for the green economy in the ECE region (PDF)

Texti og mynd: Þröstur Eysteinsson