Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Hallormsstað, segir frá skógarnytjum.
Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Hallormsstað, segir frá skógarnytjum.

Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóganna, fjallar um grisjun og sölu viðar hjá Skógrækt ríkisins.


Gengi íslensku krónunnar lækkaði allt árið 2008 og hrapaði síðan í kjölfar hruns fjármálageirans í október. Þetta hafði þær afleiðingar að verð á innfluttum vörum jókst verulega. Meðal afleiðinga þessa ástands var að eftirspurn eftir sumum innlendum viðarafurðum jókst. Sala arinviðar tæplega tvöfaldaðist milli áranna 2007 og 2008 og sala óunnins bolviðar var fjórfallt meiri en hún hafði verið áður. Sala fletts viðar og kurls dróst lítillega saman.

Aukin sala arinviðar skýrist einkum af því að markaðssetning á furu- og lerkiarinviði hófst fyrir alvöru árið 2008 og kom hann að einhverju leyti í staðinn fyrir innfluttan arinvið. Á árinu 2008 náðust góð viðskiptasambönd við fyrirtækið Hestalist sem framleiðir hefilspæni til að nota sem undirburð undir húsdýr. Hestalist flutti áður inn bolvið í sína framleiðslu en fall krónunnar varð til þess að fyrirtækið gat boðið verð fyrir innlendan bolvið á Suður- og Vesturlandi sem stóð undir kostnaði við grisjun og útkeyrslu, þ.e.a.s. þar sem tré voru sæmilega stór og ekki var langt að vegi. Í þessu umhverfi hófst árið 2009: Arinviður seldist sem aldrei fyrr og Hestalist vildi kaupa allan bolvið sem féll til á Suður- og Vesturlandi. Stór pöntun lá auk þess fyrir á fiskihjallaspírum, fyrirséð var að viðarkynt hitaveita mundi rísa á Hallormsstað og fyrirspurn hafði komið frá járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga um viðarkurl sem kolefnisgjafa í framleiðslu þeirra á kísilmálmi.

Ljóst var að eftirspurn eftir grisjunarviði yrði talsvert meiri en áður hafði þekkst og jafnljóst að það yrði umtalsvert átak fyrir Skógrækt ríkisins að auka grisjun verulega. Það átak fól m.a. í sér stórfellda fjölgun útboða á grisjunarverkefnum, ráðningu skógarhöggsmanna af atvinnuleysisskrá, kaup á timburvögnum og kurlara, mikla vinnu við mælingar á skógum, gerð grisjunaráætlana og heilmikinn lærdóm. Tölulegar niðurstöður sem hér birtast eru fengnar úr bókhaldi Skógræktar ríkisins, niðurstöðum útboða og mælingum á skógum og viðarmagni.

Liðin er sú tíð þegar hugtakið „skógrækt“ merkti einungis „að gróðursetja tré“. Þótt skógarauðlindin sé lítil og hvergi sé komið að lokafellingu, þá stóð grisjun skóga á Íslandi undir umtalsverðri kröfu um framleiðslu þegar kallið kom. Starfsfólk allra sviða Skógræktar ríkisins lagði mikið á sig til að láta hlutina ganga og ekki síður verktakarnir og starfsfólk þeirra. Metnaður til að standa sig og geravel var almennur og ekki síður stolt yfir því að taka þátt í ævintýrinu. Fólk var stolt af því að geta bjargað málunum í kreppunni, af allri starfseminni í skógunum, af stóru timburstæðunum við skógarveginn og stóru flutningabílunum hlöðnum timbri, af viðarmagnstölunum í hundruðum og þúsundum rúmmetra en ekki bara tugum, stolt af skógunum okkar. Með orðum Sigurðar Blöndal: „þetta getur Ísland“!Á myndinni má sjá Þór Þorfinnsson, skógarvörð á Hallormsstað, fræða umhverfisráðherra og fylgdarlið um grisjun í Hallormsstaðarskógi sumarið 2009.

Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir, kynningarstjóri.