Gott er að fá jákvæð skilaboð um það sem hægt er að gera til að hamla gegn loftslagsbreytingum. Eitt af því sem hægt er að gera er að rækta meiri skóg. Þetta segir í leiðara Laufblaðsins, fréttabréfs Skógræktarfélags Íslands sem nýkomið er út.

Í leiðaranum leggur ritstjórinn, Ragnhildur Freysteinsdóttir út frá boðskap alþjóðlegs dags skóga, 21. mars 2019, um skóga og fræðslu. Hún ræðir hversu mikilvægt sé að fræða fólk um skóga, nú þegar æ fleiri búi í þéttbýli. Skógræktin, skógræktarfélögin hafi alla tíð lagt sitt af mörkum í þessum efnum og skógar skógræktarfélaga um allt land verið mikilvægur vettvangur til slíkrar fræðslu. Niðurlag leiðarans er á þessa leið:

En betur má ef duga skal. Loftslagsváin hefur virkjað ungt fólk til verka með skólaverkföllum fyrir umhverfið – komin er krafa um meiri fræðslu í skólakerfinu um loftslagsvandann og meiri aðgerðir hins opinbera til að bregðast við honum. Þar stendur upp á núverandi kynslóðir. Það er nefnilega ekki nóg að fræða komandi kynslóðir og ætla þeim að takast á við vandann. Enn þann dag í dag eru ýmsir sem afneita eða neita að horfast í augu við þann veruleika sem loftslagsbreytingar eru. Það er líka til margt fólk sem viðurkennir vandann og vill bregðast við en fallast hendur með hvernig á að snúa sér í því. Þegar ég var krakki voru stóru umhverfismálin í umræðunni gatið á óson-laginu og eyðing regnskóganna. Þau skilaboð sem ég, sem barn, tók ómeðvitað úr umræðunni þá voru að heimurinn væri á leiðinni hálfa, ef ekki alla, leið til helvítis. Svo sá ég eina þáttaröð þar sem skilaboðin voru: þetta er vandamálið og þetta er það sem við getum gert til að bregðast við. Þrjátíu árum síðar man ég ekkert hvað þáttaröðin hét, en man enn hvað það var mikill léttir að fá umfjöllun með smá jákvæðni - þar sem bent var á lausnir.Það eru einmitt skilaboðin sem vantar svo oft – þetta getum við gert. Eitt af því sem við getum gert er að rækta meiri skóg. Er ekki ágætt að byrja fræðsluna á því?

Óhætt er að taka heils hugar undir þessi orð Ragnhildar. Af öðru efni Laufblaðsins er að segja að þar er sagt frá áttræðisafmæli Skógræktarfélags Borgarfjarðar og nýjum samningi um Landgræðsluskóga. Fjallað er um gamla rétt sem hlaðin er úr grjóti og hefur verið endurgerð fyrir tilstilli skógræktarfélagsfólks í Ólafsvík og fleiri.

Fregnir eru í Laufblaðinu  af fulltrúafundi skógræktarfélaganna 16. mars og sagt frá nýju félagi, Skógarkonum, sem stofnað var formlega 1. febrúar. Félagið á sér fyrirmynd á Norðurlöndunum, í samtökum kvenna í skógrækt í Noregi (Kvinner i Skogbruket) og Svíþjóð (Spillkråkan). Þrettán konur sátu stofnfundinn og annað eins hefur óskað eftir aðild. Fyrsti formaður er Agnes Geirdal skógarbóndi og í stjórn sitja með henni Ragnhildur Freysteinsdóttir og Sigríður E. Elefsen. Aftar í blaðinu skrifar Ragnhildur grein þar sem hún spyr: Af hverju Skógarkonur? og fer yfir tilgang félagsins.

Kaup Skógræktarfélags Reykjavíkur á Fellsmörk í Mýrdal eru tíunduð í blaðinu, Bernhard Jóhannesson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs, flytur hugleiðingu um almenningssalerni, sagt er frá aðalfundi Skógræktarfélags Garðabæjar þar sem Erlu Bil Bjarnadóttur voru þökkuð áratuga störf fyrir félagið. Sagt er frá rausnarlegum styrk til Skógræktarfélags Reykjavíkur úr Minningarsjóði Páls Gunnarssonar, stjórnarskiptum í Landgræðslusjóði þar sem Þuríður Yngvadóttir tók við stjórnartaumum af Guðbrandi Brynjúlfssyni og einnig er í blaðinu minnt á samstarfsverkefnið Líf í lundi sem er regnhlíf skógarviðburða 22. júní í sumar.

Laufblaðið er aðgengilegt á vef Skógræktarfélags Íslands, skog.is, og það má lesa á vefnum á eftirfarandi hlekk:

Texti: Pétur Halldórsson