Hluti þátttakenda í fyrsta gróðursetningardegi Skógræktar- og uppgræðslufélags Þorlákshafnar og Ölfu…
Hluti þátttakenda í fyrsta gróðursetningardegi Skógræktar- og uppgræðslufélags Þorlákshafnar og Ölfuss af þremur sem boðað er til í sumar. Ljósmynd af dfs.is.

Skógræktar- og uppgræðslufélag Þorlákshafnar og Ölfuss hóf formlega starfsemi sína árið 2014. Gengið var frá samningi við Sveitarfélagið Ölfus um úthlutun á 55 hektara lands til uppgræðslu og skógrækt á Þorlákshafnarsandi á móts við Eyrabakkaveg. Síðan  hefur verið gróðursett árlega á svæðinu. Þannig hefst frétt á Fréttavef Suðurlands, dfs.is, sem birtist 25. júlí.

Fram kemur í fréttinni að borinn sé áburður og hrossaskítur á valin svæði til að binda jarðveg og búa land undir gróðursetningu. Töluverð lúpína sé á svæðinu en einnig ber sandur inn á milli sem mikilvægt sé að binda og græða aðeins upp áður en hafist sé handa við gróðursetningu.

Á svörtum sandinum vaxa ýmsar trjátegundir. Hér sést státið sitkaelri sem hjálpar líka til við að auðga jarðveginn með hjálp örvera á rótum. Ljósmynd af dfs.is.Þá er greint frá því að fjöldi gróðursettra plantna hafi verið nokkuð breytilegur ár frá ári, allt frá um tvö þúsund plöntum og upp í tíu þúsund. Félagið hafi notið mikillar velvildar víða og sveitarfélagið aðstoðað við flutning á aðföngum. Sláturfélag Suðurlands hefur gefið félaginu úrgangsáburð og Hestmannafélagið Háfeti hrossaskít til dreifingar á sandinum. Þá hafi Landgræðsla ríkisins einnig styrkt félagið til áburðarkaupa. Sótt hafi verið um styrk í Uppgræðslusjóð Ölfuss og fjármagn fengist til plöntukaupa. Plönturnar hafa verið keyptar í heimabyggð, hjá gróðrarstöðinni Kjarri í Ölfusi. Skógræktarfélag Árnessýslu hefur líka úthlutað félaginu árlega um 600-800 plöntum til gróðursetningar og segir í fréttinni að öll þessi velvild sé félaginu afar mikilvæg. Félagsfólk og almenningur í Ölfusi vinni alla vinnuna í sjálfboðavinnu og markmiðið sé að græða markvisst upp svæðið, skapa skjólsæla lundi og stígakerfi sem henta til útivistar og hvers konar hreyfingar.

Skógræktar- og uppgræðslufélag Þorlákshafnar og Ölfuss boðar fólk til gróðursetningar árlega og þrír slíkir gróðursetningardagar hafa verið skipulagðir í sumar. Sá fyrsti var þriðjudaginn 17. júlí og kom góður hópur áhugasams fólks, bæði fullorðinna og barna. Gróðursettar voru um 2.500 plöntur, birki, víðitegundir ösp. Fram kemur í frétt dfs.is að töluverður árangur sé farinn að sjást af þessu starfi þótt gengið hafi á ýmsu. Stundum hafi miklir þurrkar eftir gróðursetningu spillt fyrir og sterkir vindar, sérstaklega þegar blæs af sjó.

Á Hafnarsandi eins og annars staðar fer að ganga betur eftir því sem trén vaxa upp en lúpína veitir líka skjól á sumrin. Frétt dfs.is endar á þeim nótum að smám saman verði þarna paradís fyrir alla og með samtakamáttinn að vopni verði til góður skógur handa samfélaginu.

Fréttin á df.is