Stöðugt bætist við þær upplýsingar sem finna má um skóga landsins í skóglendisvefsjá Skógræktarinnar…
Stöðugt bætist við þær upplýsingar sem finna má um skóga landsins í skóglendisvefsjá Skógræktarinnar.

Sjá má reiknað flatarmál skóga og hlutfall innan sveitarfélags

Skóglendisvefsjá Skógræktarinnar hefur verið uppfærð og nú má fá upplýsingar um allt birkiskóglendi, alla ræktaða skóga og samanlagt skóglendi landsins ásamt hlut­föllum innan sveitarfélaga.

Landupplýsingakerfi eru í stöðugri þróun og sífellt bætist við þá möguleika sem gefast til að veita hvers kyns landfræðilegar upp­lýs­ing­ar. Jafnframt verður æ auðveldara að útbúa upplýsingarnar þannig að þær séu skýrar og aðgengilegar á mismunandi tækjum, hvort sem það eru borðtölvur, far­tölvur, spjaldtölvur, farsímar, staðsetningar­tæki eða annað. Þetta kemur sér mjög vel fyrir skógræktendur sem þurfa stöðugt að uppfæra upplýsingar um skógræktar­lönd, skipu­leggja ræktun, grisjun, fellingu og þess háttar en líka að fylgjast með vexti, náttúr­legri út­breiðslu og þar fram eftir götum.

Skóglendisvefsjá Skógræktarinnar er nú skipt í þrennt. Í fyrsta lagi er vefsjá fyrir allt birki á Íslandi, í öðru lagi ræktaða skóga og þriðja vefsjáin sýnir allt skóglendi, bæði villt og ræktað. Fyrir allar vefsjárnar er reiknað út flatarmál og hlutfall innan viðkomandi sveitarfélags og einnig flatarmál skóga sem hlutfall af sveitarfélagi annars vegar og hins vegar sem hlutfall af landi neðan 400 metra hæðar yfir sjó. Áður var einungis hægt að skoða hvert sveitarfélag í heild en nú eru allar upplýsingarnar gefnar upp út frá tilteknum reit og þar með gefa vefsjárnar enn ítarlegri upplýsingar en áður.

Skóglendisvefsjár

Til þess að sjá upplýsingar um skóglendi á tilteknum stað eða svæði þarf að smella á einhvern skógarreit. Þá kemur upp gluggi með upplýsingum um landshluta og sveitarfélag, yfirtegundir skógarins, meðalhæð trjánna, stærð þess reit sem smellt er á í hekturum, flatarmál skógræktar í sveitarfélaginu, hlutfall skógræktar í sveitarfélaginu og hlutfall skógræktar neðan 400 metra hæðar yfir sjó í þessu sama sveitarfélagi.

Ábendingar vel þegnar

Alltaf kunna að vera skekkjur í þeim gögnum sem liggja að baki upplýsingunum í vefsjánni og sömuleiðis kunna að vera skógarreitir eða vilt birkiskóglendi sem ekki hafa borist upplýsingar um. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar og þær má senda Birni Traustasyni á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá. Netfang hans er bjorn@skogur.is.

Texti: Pétur Halldórsson