Aðalsteinn sýnir í myndbandinu hvernig stafafurukönglum er safnað og hvernig blanda má fræjunum sama…
Aðalsteinn sýnir í myndbandinu hvernig stafafurukönglum er safnað og hvernig blanda má fræjunum saman við mold af rótum eldri trjáa til að tryggja svepprótarsmit og þar með betri árangur í örfoka landi.

Fróðlegt myndband

Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, lýsir því með skilmerkilegum hætti í nýju myndbandi hvernig safna má fræi af stafafuru og sá því með svepprótasmiti í ógróið land. Árangurinn af slíkum sáningum er mjög góður og trén verða jafnvel betri og rótfastari en þegar gróðursettar eru bakkaplöntur.

Myndbandið gerði Hlynur Gauti Sigurðsson, nýráðinn svæðisstjóri hjá Skógræktinni með aðsetur á Hvanneyri. Hlynur hefur unnið sem myndatökumaður og klippari á Stöð 2 og rekur nú eigið kvikmyndafyrirtæki, KvikLand.

Skóggræðsla á láglendisauðnum Íslands hefur margfaldan ávinning í för með sér. Úr þeim auðnum sem áður voru gróið land losnar koltvísýringur því lífræn efni í jarðveginum, moldin sem nærði gróðurinn, eru enn að rotna burt. Við uppgræðslu á slíku landi stöðvast þessi losun og í staðin hefst binding. Mest er bindingin ef landið klæðist skógi og stafafura er landnemategund líkt og íslenska birkið en gefur mun meiri afurðir. Á þeim svæðum sem það hentar er því mjög vænlegt að rækta stafafuru. Sáning er ódýr og auðveld leið og í myndbandinu sýnir Aðalsteinn ýmsar sniðugar aðferðir sem stuðla að því að af fræjunum spretti hraustlegar trjáplöntur.

Að fræjum stafa fagrir skógar

Texti: Pétur Halldórsson