Stórkostleg skóggræðsla í Kóreu. Mynd: Korea Forest Service
Stórkostleg skóggræðsla í Kóreu. Mynd: Korea Forest Service

Lífi blásið í skemmd vistkerfi með trjám

Suður-Kórea, Suður-Afríka og Eþíópía eru meðal þeirra fjölmörgu landa í heiminum sem nýta sér mátt trjágróðurs til landgræðslu og landbóta á svæðum þar sem gróðri hefur verið eytt og jarðvegseyðing orðið í kjölfarið. Með þessu starfi fæst aftur gjöfult land, bæði fyrir menn og náttúruna sjálfa, sjálfbær vistkerfi og líffjölbreytni.

Suður-Kóreumenn voru gestgjafar á ráðstefnu sem haldin var 10. október í haust í tilefni alþjóðlega trjáfjölbreytnidagsins þetta árið, Tree Diversity Day 2014. Þátttakendur í ráðstefnunni fengu að sjá hvernig áðurnefnd þrjú lönd hafa unnið að skóggræðslu. Ljóslega kom fram að endurhæfing vistkerfa er mikið verk og tekur sinn tíma. Til þess að skóggræðsla sem þessi gangi vel er gott að fólk í öllum lögum samfélagsins taki þátt í henni, allt frá stjórnvöldum og embættisfólki yfir til áhugamannafélaga og grasrótarsamtaka.

Suður-Kórea

Fyrir hálfri öld var lýðveldið Kórea enn að brjótast úr hlekkjum nýlendutímans (1910-1945) og ná sér á strik eftir Kóreustríðið (1950-1953). Árið 1973 var hrundið af stað verkefni til að endurrækta skóga landsins (Forest Rehabilitation Project). Þá hafði verið komið á fót þeim stofnunum og stjórnkerfi sem til þurfti, meðal annars kóresku ríkisskógræktinni (Korea Forest Service).

„Ef þér þykir vænt um landið þitt, ræktaðu tré!“ Einhvern veginn á þá leið komst þáverandi forseti landsins, Park Chung-hee, að orði á sínum tíma.

Sú áætlun að rækta upp kóreska náttúru var sett efst á forgangslistann af öllum opinberum áætlunum Kóreumanna á þessum tíma. Og árangurinn var stórkostlegur. Meira en ein milljón hektara lands þar sem skógi hafði verið eytt var endurræktað með hraðvöxnum trjátegundum. Almenningur lagði gjörva hönd á plóg og verkefnið naut mikils stuðnings meðal stjórnmálafólks.

Á trjáfjölbreytnideginum í Kóreu 10. október talaði meðal annarra Choi Youngtae, yfirmaður alþjóðasamstarfs hjá kóresku ríkisskógræktinni. Hann sagði frá því að þessi umbreyting lands hefði ekki verið þrautalaus. Marga þröskulda hefði þurft að yfirstíga. Meðal annars hefði menn skort menntun og þekkingu, fjármagn hefði verið af skornum skammti, vinnuafl líka, stefnan óskýr ekki síður en meðvitund fólksins um samhengi hlutanna.

Choi Youngtae, alþjóðafulltrúi kóresku ríkisskógræktarinnar.
Mynd: ICRAF/Daisy Ouya

Engu að síður tókst Kóreumönnum með harðfylgi að græða landið sitt upp aftur. Fólk gróf holur með handafli, bar húsdýraáburð á bakinu upp brattar hlíðar, reytti illgresi frá trjáplöntunum og vökvaði. Stjórnvöld skipulögðu ræktun trjáplantna vítt og breitt um hið unga, sjálfstæða lýðveldi.

Af því að bæði skorti mannafl og peninga var lögð áhersla á að vinna verkið smátt og smátt og að láta meira og meira renna til ræktunarstarfsins eftir því sem hagur vænkaðist, til dæmis með styrkjum frá hinu opinbera. Það sem skorti á stefnumörkun og þekkingu almennings var reynt að bæta upp með skýrum lögum og reglugerðum sem mótaðar voru í samráði við almenning á hverjum stað og fylgt fast eftir. Á öllum sviðum samfélagsins var lögð áhersla á samstarf og þarna notfærðu yfirvöld sér þá samstarfshefð sem er rótgróin meðal fólksins í þorpum og sveitum landsins.

Sjá myndband um Young-il verkefnið gegn skógareyðingu:

Young-il forest erosion control project

Þegar hlíðar höfðu verið þaktar skógi á ný hurfu vandamál sem áður höfðu verið daglegt brauð. Náttúruhamfarir eins og flóð, þurrkar, uppskerubrestur og skortur á brenni heyrðu sögunni til. Nú er hagurinn af skógum Kóreu metinn á um 103 milljarða Bandaríkjadollara eða meira en 12 þúsund milljarða íslenskra króna, í formi bæði afurða og vistkerfisþjónustu, að sögn Chois Youngtaes, alþjóðafulltrúa kóresku ríkisskógræktarinnar.

Tré eru svo hátt sett í kóreskri menningu að yfirvöld hafa friðað 11.573 gömul, stór eða sjaldgæf tré. Slík tré eru líka kölluð móðurtré (Protected Trees in Korea) og litið er á þau sem hluta af þjóðararfinum sem skylt sé að varðveita fyrir komandi kynslóðir.

Og á tólftu ráðstefnu samnings Sameinuðu þjóðanna um líffjölbreytni (CBD COP 12) sem haldin var 5.-12. október í borginni Pyeongchang í Suður-Kóreu hleyptu Suður-Kóreumenn af stokkunum verkefni sem kallast á ensku Forest Ecosystem Restoration Initiative (FERI). Því er ætlað að styðja þróunarlönd í sams konar starfi og Kóreumenn hafa fengið dýrmæta reynslu af með skóggræðslu sinni. Framtíðarsýnin með FERI er sú að í fyllingu tímans endurheimti jarðarbúar þá skógarþekju sem var á jörðinni áður en stórkostleg skógareyðing hófst með iðnbyltingunni og nýlendutímanum. FERI-verkefnið muni leggja sitt að mörkum til að ná svokölluðum Aichi-markmiðum um líffjölbreytni, einkum markmiðum 5, 11, og 15.

En hugum nú að nokkrum skóggræðsluverkefnum í Suður-Afríku og Eþíópíu.

Suður-Afríka

Hvort sem litið er á landslag, loftslag eða samfélag er Suður-Afríka mjög ólík Kóreu. Í Suður-Afríku hafa menn nú hafist handa við að endurheimta horfna ásýnd landsvæða og byggja upp á ný náttúrlega líffjölbreytni í skógum. Christo Marais, sem stýrir málefnum auðlindanýtingar hjá umhverfisráðuneyti Suður-Afríku, lýsti reynslu Suður-Afríkumanna með sannfærandi hætti á alþjóðlega trjáfjölbreytnideginum í Kóreu.

Í Suður-Afríku er álitið að mikil ógn stafi af innfluttum plöntutegundum og þau áhrif nái til um 19 milljóna hektara lands. Áhrifin séu meðal annars þau að draga úr framleiðni vistkerfanna en einnig spilli þetta fyrir náttúruferðamennsku og dragi úr framboði á endurnýjanlegum orkugjöfum og byggingarefni. Sömuleiðis hafi þessi þróun í náttúru landsins neikvæð áhrif á kolefnisbúskapinn og ekki síður á líffjölbreytni í dýraríkinu, hvort sem litið sé til stórra dýra eins og nashyrninga eða smádýra á borð við drekaflugur. Gróður- og jarðvegseyðing á bökkum vatnsfalla stofni enn fremur vatnsöryggi fólks í hættu, því meir sem fólk býr neðar við vatnsföllin, segir Marais.

Á vegum suður-afrískra stjórnvalda er nú unnið að endurgræðslu spilltra gróðurlendna vítt og breitt um landið og með margvíslegum aðferðum. Meðal verkefna sem unnið er að má nefna nokkuð sem kallast ‘Sub Tropical Thicket Restoration Programme', þar sem fólk á staktrjáasléttunum vinnur að því að uppræta ágengar, innfluttar runnategundir til að endurheimta það sem talið er vera náttúrlegt graslendi. Í skemmd vistkerfi gróðursetja þau líka innlenda tegund runna eða smávaxinna trjáa sem kallast runnaportúlakka á íslensku (Portulacaria Afra). Tegundin er af helluhnoðraætt, lágvaxið tré eða runni, og þolir bæði steikjandi sólarhita á sumrin og þau frost sem orðið geta á vetrum. Þetta er raunar tegund sem notuð hefur verið sem stofublóm hérlendis.

Annað uppgræðsluverkefni í Suður-Afríku kallast ‘Working for Forests'. Þar er markmiðið að færa svæði þar sem ágengar, innfluttar tegundir hafa orðið allsráðandi nær fyrra horfi með úrvali vel valinna tegunda sem ekki eru taldar ágengar.

Þá hafa stjórnvöld einnig forystu um endurgræðsluverkefni með fram ám og fljótum. Nú starfa um 50.000 manns að þessum verkefnum og markmiðið er að byggja upp á ný heilbrigð skógvistkerfi með því að gróðursetja innlendar tegundir akasíutrjáa, ólívutrjáa og trjáa af ættkvíslinni Rhus. Undir þessum trjám og runnum muni svo smám saman byggjast upp aftur skógarbotn með náttúrlegri tegundafjölbreytni.

Eþíópía

Í Eþíópíu er unnið að uppgræðsluverkefni með það að markmiði að klæða 15 milljónir hektara lands trjágróðri. Þar er meðtalinn trjágróður sem ræktaður er á löndum bænda til að styðja við aðra landbúnaðarframleiðslu, svokallaður skógarlandbúnaður. Stjórnvöld sjá fyrir sér að þetta muni stuðla að meiri framleiðni í landbúnaði í Eþíópíu, renna stoðum undir efnahag landsins og bæta stöðu umhverfismála. Eþíópía er eitt af þeim löndum sem sjónum er beint að í verkefninu Trees for Food Security project sem ICRAF, alþjóðleg stofnun um skógarlandbúnað, hefur umsjón með. Stofnun þessi hefur höfuðstöðvar í Næróbí í Kenía og heitir á ensku The World Agroforestry Centre, skammstafað ICRAF.

Myndband um uppgræðslu í Eþíópíu:

Regreening Ethiopia's Highlands: A New Hope for Africa

Tesfaye Awas stýrir málefnum lækningajurta við líffjölbreytnistofnun í Eþíópíu (Ethiopian Biodiversity Institute). Hann vakti athygli gesta á trjáfjölbreytnideginum í Kóreu þegar hann sagði frá verkefni sem kallast á ensku ‘Capacity Building for Access and Benefit Sharing and Conservation and Sustainable Use of Medicinal Plants in Ethiopia. Þetta er fjölþætt verkefni sem nýtur styrks frá hnattræna umhvefisbótasjóðunum GEF (Global Environment Facility) og snýst um að gera lækingajurtir í Eþíópíu aðgengilegar til nýtingar, deila þeim gæðum, vernda um leið þessa auðlind og stuðla að sjálfbærri nýtingu hennar.

Þau verkefni sem hér hafa verið tíunduð eru aðeins fáein dæmi um metnaðarfull verkefni sem unnið er að víðs vegar um heiminn til að græða upp land. Þau eru vísbending um að augu jarðarbúa séu að opnast fyrir því að ef stjórnmálafólk hefur viljann til, yfirvöld í löndum heims eru tilbúin að leggja til fjármagn og nægilega margir íbúar landanna að leggja á sig nokkurt erfiði er mögulegt að rækta upp á ný landsvæði þar sem gróðri hefur hnignað og jarðvegur eyðst.

Heimild: Agroforestry World Blog/Daisy Ouya
Íslenskur texti: Pétur Halldórsson