Sérstætt loftljós frá Hilden&Diaz í Danmörku

Skrifari vefsins skógur.is rakst á skemmtilegt loftljós á ferðum sínum um veraldarvefinn. Ljósið varpar skuggum á veggi rýmisins sem það hangir í. Form skugganna eru tré og trjágreinar svo manni líður eins og maður sé staddur í fallegu skógarrjóðri. 

Danska listatvíeykið Thyra Hilden og Pio Diaz hafa starfað saman undir merkinu Hilden&Diaz frá árinu 2005. Thyra Hilden er fædd í Danmörku 1972 og hafði einbeitt sér að því að kanna tilvistarlega tvíræðni í ljósmyndum sínum og myndböndum. Pio Diaz er Argentínumaður, fæddur 1973, og hafði stundað konseptlist þar sem hann rýndi í pólitísk og þjóðfélagsleg efni í listsköpun sinni með inngripum í opinberu rými og á almannafæri. Menningarlegur og listrænn munur þeirra tveggja þykir gefa samstarfi þeirra mikið gildi og sveigjanleika.

Þau hafa mikið unnið með eldinn í innsetningum sínum og vakið athygli fyrir innsetningar í frægum byggingum sem litið hafa út þannig að þær stæðu í björtu báli. Dæmi um slíkar byggingar er hringleikahúsið forna Colosseum í Róm. En þau hafa líka í seinni tíð litið mikið til viðkvæmra fyrirbrigða í náttúrunni sem kunna að eiga undir högg að sækja á hinum síðustu og verstu tímum. Verkin vísa til teikninga eftir þýska nítjándu aldar náttúrufræðinginn og listamanninn Ernst Haeckel. Listafólkið hefur meðal annars hannað ljós sem varpa formum úr náttúrunni á veggi herbergjanna sem ljósin hanga í. Í loftljósinu á myndinni er tilfinningin að vera í skógi flutt inn í hús svo nú geta skógarunnendur verið í skógi í huganum þótt þeir séu heima hjá sér.

Nánar um þetta á vef listafólksins, HildenDiaz