Tannbursti úr íslenskum viði vakti athygli.
Tannbursti úr íslenskum viði vakti athygli.

Um 350 manns sóttu sýningu Hönnunarmars í Heiðmörk

Sýningin Skógarnytjar, samstarfs­verkefni vöruhönnuðarins Björns Stein­ars Blumensteins og Skóg­rækt­arinnar, fór fram dagana 15.-18. mars í bækistöðvum Skógræktar­félags Reykjavíkur í Heiðmörk. Sýn­ingin var liður í hönnunar­hátíðinni Hönnunarmars. Hátt í 350 manns komu í Heiðmörkina til að virða fyrir sér það sem fyrir augu bar á sýning­unni.

Björn Steinar segist í samtali við skogur.is hafa fundið fyrir talsverðum áhuga á sýningunni innan skógarsamfélagsins, en ekki síður hjá hönnuðum, öðrum sýningargestum og fréttamiðlum.

Sýningin markar upphaf að þróunarverkefni sem ætlað er að sýna fram á möguleika á framleiðslu innanlands úr íslenskum skógarafurðum. Skógarauðlindin verður rannsökuð og kortlögð. Með því verður til þekking og jarðvegur sem stuðlað getur að því að skógarnytjar verði sjálfsagður þáttur í hönnun og framleiðslu hérlendis.


Björn Steinar bindur vonir við að sýn­ingin og áframhaldandi vinna við verkefnið Skógarnytjar veki áfram athygli og áhuga skógar- og hönn­un­ar­samfélagsins og að fólk úr röðum beggja þessara hópa fylgi verkefninu eftir. Þannig megi sjá til þess að raunverulegur viðsnúningur verði í nýtingu skógarafurða með tilheyrandi verðmætasköpun.

Meðfylgjandi myndir sendi Björn Steinar til birtingar á skogur.is. Þær gefa einhverja hugmynd um sýning­una og þróunarstarfið sem að er unn­ið.

Nokkuð var fjallað um Hönnunarmars í fjölmiðlum og meðal annars gerði sjónvarpsþátturinn Menn­ing­in hátíðinni skil. Þar var rætt við Björn Steinar sem gat þess að á sýningunni væru verk eftir marga af bæði færustu og efnilegustu hönnuðum landsins en einnig hönnuði frá Mexíkó, Hollandi, Póllandi og víðar.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Björn Steinar Blumenstein