Skagfirskur skógur með Mælifellshnjúk í baksýn. Ljósmynd: Morgunblaðið/Sigðurður Bogi
Skagfirskur skógur með Mælifellshnjúk í baksýn. Ljósmynd: Morgunblaðið/Sigðurður Bogi

Skógrækt bænda á Íslandi skilar afurðum og tekjum talsvert fyrr en vænta mátti, sem rennir nýjum stoðum undir búskap og afkomu fólks í sveitum landsins. Þetta segir Hrefna Jóhannesdóttir, skógfræðingur og bóndi á Silfrastöðum í Blönduhlíð í Skagafirði, í samtali við Morgunblaðið. 

Sigurður Bogi Sævarsson blaðamaður ræddi við Hrefnu og birtist viðtalið 7. október. Hrefna er skipulagsfulltrúi Skógræktarinnar, auk þess að vera skógarbóndi á Silfrastöðum. Fram kemur að faðir Hrefnu, Jóhannes Jóhannsson, hafi byrjað að rækta skóg á Silfrastöðum fyrir um 30 árum og samtals hafi verið gróðursettar um 1,3 milljónir trjáplantna í nágrenni bæjarins og inn til dals, sem er Norðurárdalur í Sikagafirði. Þá segir orðrétt í blaðinu:

Greinin í Morgunblaðinu

Úr Silfrastaðaskógi fást nú talsverðar nytjar af grisjunarvið. Sumt er notað í kurl sem undirburður í reiðskemmum og annað nýtist sem eldiviður til kyndingar. Grennstu bolirnir verði girðingarstaurar og stutt er í að hægt verði að saga boli í verðmætari efnivið svo sem  flettivið ýmiss konar. Í dag eru Hrefna og Johan Wilhelm Holst, maki hennar, tekin við skógarbúskapnum, sem er vaxandi vegur.

Hentar  vel með öðrum búskap

Í þeim mæli að tali taki hófst bændaskógrækt á Íslandi um 1990. Skógarmenningin er sterk austur á landi, þar  sem í gildi eru samningar milli bænda og Skógræktarinnar á alls 147 jörðum. Á Norðurlandi eru samningar þessir rúmlega 200, 131 á Vesturlandi, um 100 á Suðurlandi og 48 á Vestfjörðum. Alls eru þetta nokkuð á 7. hundrað jarðir og fleiri samningar eru í burðarliðnum.  Alls 97% af útlögðum kostnaði bænda við undirbúning og útplöntun er greiddur af ríkinu, vinnulaun þar með.

„Á fjölda jarða, þar sem  byrjað var að planta fyrir um 20 árum, eru nú komnir skógar þar sem grisja þarf. Vissulega eru tekjur sem þetta skilar bændum núna ekki  áar fjárhæðir en ágæt búbót,“ segir Hrefna Jóhannesdóttir. „Raunar liggur galdurinn í því að oft hentar skógrækt til sveita vel með til  dæmis hefðbundnum búskap. Þar koma verkefnin hvert á sínum tíma ársins, en svo eru eyður inn á milli og þá getur hentað að vinna í  skóginum. Gróðursetja á vorin og grisja eða fella tré á haustin og veturna.“

Gróskusumar 

Nýliðið sumar var að mörgu leyti gott og  gróskumikið, segir Hrefna. Norðanlands var kuldi ríkjandi framan af, en svo tók að hlýna og þá tók gróður vel við sér. „Að rækta skóg  krefst mikillar vinnu, hvort heldur er við að undirbúa jarðveginn og gróðursetja – og svo umhirðan þegar að því kemur. En að taka þátt í  því að ljá landinu nýjan svip með fallegum skógi og taka þátt í því að styrkja þá búgrein sem bændaskógræktin er, hljóta að teljast  forréttindi,“ segir Hrefna sem starfar sem sérfræðingur hjá Skógræktinni. Sinnir þar einkum og helst skipulagsmálum, þótt margt fleira  falli til.

Stefnt að sameiningu í Skagafirðinum

Auk framangreindra verkefna er Hrefna oddviti Akrahrepps; það er byggðarinnar sem  liggur að Blönduhlíðarfjöllum í austanverðum Skagafirði. Oft er hreppurinn, hvar búa ríflega 200 manns, kallaður Fríríkið; því héraðið allt  er að öðru leyti Sveitarfélagið Skagafjörður sem til varð fyrir um 20 árum. Í dag er hins vegar í umræðunni að sameina sveitarfélögin – en um þessar mundir er verið að greina, vega og meta ýmsar útfærslur þess.

„Okkur miðar ágætlega áfram í þessu starfi. Ég vænti að  íbúar fái að greiða atkvæði um hugsanlega sameiningu í janúar á næsta ári. Verði hún samþykkt yrði þá kosið í einum sameinuðum  Skagafirði næsta vor,“ segir Hrefna Jóhannesdóttir.

Hún minnir á að nú þegar hafi þessi tvö sveitarfélög með sér margvíslegt samstarf,  svo sem um skólamál. Um fjórðungur 100 grunnskólanema í Varmahlíðarskóla komi úr Akrahreppi, handan vatna, og þar sé einnig  leikskóli sem sveitarfélögin reki saman. Svona megi tiltaka fleiri snertifleti og samstarf, hvað sem úr verði í fyllingu tímans.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson