Gerður Magnúsdóttir, verkefnisstjóri Skóla á grænni grein hjá Landvernd, afhendir Grænfánann
Gerður Magnúsdóttir, verkefnisstjóri Skóla á grænni grein hjá Landvernd, afhendir Grænfánann

Unnið að gerð skógarnámskrár

Í vikunni endurnýjuðu Skógrækt ríkisins og Þjórsárskóli eldri samstarfssamning frá 2009 um þróun skógarfræðslu skólastarfi Þjórsárskóla til næstu þriggja ára eða til ársins 2017.

Grænfáni Landverndar var afhentur í 6. skipti af þessu tilefni en Þjórsárskóli er annar tveggja grunnskóla sem hafa fengið Grænfánann sex sinnum en hinn er Hvanneyrarskóli sem lengi hefur tengt sitt skólastarf við skóg og náttúru. Aðeins einn skóli hefur fengið Grænfánann 7 sinnum. Gerður Magnúsdóttir, verkefnisstjóri Skóla á grænni grein hjá Landvernd, afhenti Þjórsárskóla Grænfánann.

Hreinn Óskarsson skógarvörður skrifaði undir samninginn fyrir hönd Skógræktarinnar og Bolette Höeg Koch skólastjóri f.h. skólans.

Frá árinu 2009 hefur margt verið gert í skógartengdu útinámi í Þjórsárdalsskógi en einnig á lóð skólans og næsta nágrenni. Þróuð hafa verið verkefni sem tengjast ólíkum námsgreinum og samþættum viðfangsefnum. Farnar eru tíðar og reglubundnar ferðir í skóginn þar sem allir nemendur og starfsfólk fara saman og einnig ferðir þar sem foreldrum er boðið að taka þátt, s.s. á aðventunni.

Í nýja samningnum er ætlunin að komast lengra í þróunarstarfinu og búa til „skógarnámskrá“ sem tengist öllum námsgreinum í samþættu skógarnámi og efla um leið einstaklingsmiðað nám og fjölbreytta kennsluhætti, þróa matsaðferðir og skógartengd viðfangsefni sem tengjast grunnþáttum menntunar s.s. lýðræði, sjálfbærni, sköpun, læsi, jafnrétti, heilbrigði og mannréttindum.

Fljótlega verður foreldrum barna í Þjórsárskóla boðið á fjölbreytt skógarnytjanámskeið þar sem lögð verður áhersla á tálgutækni, ferskviðarnytjar og skógarhirðu.

Vonast er til að mikilvægri reynslu af þessu verkefni verði hægt að miðla til annarra landshluta, skóla og skógaraðila þar sem svipaðar landfræðilegar aðstæður eru og möguleikar á samstarfi.

Texti og myndir: Ólafur Oddsson