Mynd: Ólafur Oddsson
Mynd: Ólafur Oddsson

Skóla- og frístundastarf í skógarumhverfi er meðal þess sem verður í boði á Menntakviku Háskóla Íslands sem verður haldin í Háskóla Íslands föstudaginn 4. október.

Menntakvika er árleg ráðstefna Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og þar er fjallað um rannsóknir, nýbreytni og þróun. Þessi viðburður hefur skapað sér sess sem einn mikilvægasti farvegur Háskólans fyrir miðlun á þekkingu og rannsóknum sem snúa að menntamálum, skóla- og frístundastarfi, sem og velferð og virkri þátttöku allra í samfélaginu.

Á vef Menntakviku segir að menntarannsóknir séu grunnurinn að því að varpa ljósi á hin flóknu öfl sem móta nám og kennslu, sem móta félagslegan veruleika okkar allra. Í þeim flókna og síbreytilega heimi sem við búum í þurfum við ávallt að endurnýja þekkingu okkar, endurskoða og jafnvel umbylta starfsháttum.

Síðustu ár hafi skapast breið samstaða meðal stjórnvalda, fagfélaga, sveitarfélaga og háskólanna um mikilvægi menntunar. Fjölgun hafi  orðið í kennaranámi og fram undan séu spennandi tímar og áskoranir þar sem muni reyna á öfluga samvinnu fagfólks og fræðimanna.

Menntakvika leiðir saman á hverju ári fjölda fagfólks og hagsmunaaðila sem láta sig menntun og menntavísindi varða. Flutt verða 220 erindi í 57 málstofum og viðfangsefnin bera vott um þá grósku sem er á sviði menntarannsókna, bæði hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi.

Dagskrá Menntakviku

Skóla- og frístundastarf í skógarumhverfi

Klukkan 15.30 til 17 verður haldin málstofa í stofu K-206 undir yfirskriftinni Skóla- og frístundastarf í skógarumhverfi. Þar flytur Gísli Þorsteinsson prófessor inngang að skógartengdu uppeldi. Að því búnu kemur til liðs við Gísla Ólafur Oddsson, fræðslustjóri Skógræktarinnar, og þeir fjalla um verkefnin sem kallast Gullin í grenndinni. Farið verður yfir tengsl skólastiga í sveitasamfélagi í gegnum náttúruverkefni í erindi Önnu Gínu Aagestad og Sesselja Guðmundsdóttir fjallar um tónlist skógarins. Sandra Ósk Ingvarsdóttir, Haukur Örn Halldórsson, Pála Katrín Pálmadóttirog Kolbrún Lísa Hálfdánardóttir fjalla um útilífsnámskeið og loks segir Guðni Sighvatsson frá þróun útináms í Bláskógaskóla á Laugarvatni.

Nánar

Texti: Pétur Halldórsson