Hinir árlegu Skógarleikar verða haldnir laugardaginn 7. júlí í Heiðmörk. Eins og fyrri ár býður Skógræktarfélag Reykjavíkur til ævintýralegrar stemningar í Furulundi þar sem töfrar skógarins fá að njóta sín. Keppnin sjálf vekur ávallt mikla athygli þar sem skógarhöggsmenn leiða saman hesta sína og keppa í hefðbundnum skógarhöggsgreinum svo sem axarkasti, sporaklifri, bolahöggi og afkvistun trjábola. Samhliða keppninni verður fjölbreytt dagskrá í boði fyrir fólk á öllum aldri.

Gestum býðst að spreyta sig í tálgun úr ferskum viði beint úr skóginum undir leiðsögn Benedikts Axelssonar. Auk þess kennir Ólafur Oddsson, fræðslustjóri Skógræktarinnar, börnum að kljúfa eldivið með kjullu og exi. Skógræktarfélagið leggur mikið upp úr því að sýna skóginn í sinni fjölbreyttustu mynd og í ár sýnir Hulda Brynjólfsdóttir hvernig hægt er að lita efni á náttúrulegan hátt með hráefnum úr skóginum. Eins verður hægt að kynnast einstöku ilmkjarnaolíunum frá Hraundísi Guðmundsdóttur, sem unnar eru úr íslenskum trjátegundum.

Það verður að sjálfsögðu grillað snúrubrauð yfir varðeldi og boðið upp á rjúkandi ketilkaffi í lundinum ásamt grillveislu í boði Skógræktarfélagsins. Skógarleikja-teepee-tjaldið verður reist að vanda og þar verður seiðandi stemning eins og áður.

Í tilkynningu frá Skógræktarfélaginu segir að þar á bæ sé tilhlökkunin mikil. Býður félagið allt fólk hjartanlega velkomið í Furulund 7. júlí!

Hægt er að fylgjast með undirbúningi keppninnar á Facebook (Skógarleikarnir 2018) og Instagram (@skograektarfelagreykjavikur).

Keppnisstjóri Skógarleikanna er Gústaf Jarl Viðarsson, dómari Böðvar Guðmundsson og kynnir Björn Bjarndal Jónsson.

Frekari upplýsingar veitir Skógarleikjastjórinn Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir í síma 690-9874.