Skógarhöggsvélin góða í Mjóanesskógi
Skógarhöggsvélin góða í Mjóanesskógi

Afkastar strax á við tíu skógarhöggsmenn

Kristján Már Magnússon skógverktaki hefur náð undraverðum tökum á nýju skógarhöggsvélinni sem hann keypti nýlega frá Svíþjóð. Hann fellir um 60 tré á klukkutíma með vélinni sem er um tífalt það sem einn skógarhöggsmaður með keðjusög afkastar. Þessi afköst aukast enn með meiri æfingu.

MYNDBAND

Þegar fulltrúar Skógræktarinnar hittu Kristján í gær, miðvikudag, var hann við störf í 4 1/2 hektara skógarreit í Mjóanesi í Fljótsdal þar sem er um tuttugu og þriggja ára gamall lerkiskógur. Meðalhæð trjánna er um 7,5 - 8 metrar og þéttleikinn um 3.100 tré á hektara. Með grisjuninni nú verður trjánum fækkað niður í um 1.000 tré á hektara. Þau tré sem eftir standa fá að vaxa áfram þar til næst verður grisjað.

Vélin, sem er af gerðinni GREMO 1050H, afkvistar bolina og sagar þá niður í fyrir fram ákveðnar lengdir. Í þessu tilfelli var ákveðið að neðri hlutinn skyldi sagaður í þriggja metra búta sem væntanalega verða seldir til kurlunar hjá Elkem á Grundartanga. Sá efri og mjórri er sagaður í 180 sm búta sem ætlaðir eru í girðingastaura. Kristján raðar efninu í litla stafla sem síðan þarf að sækja með útkeyrsluvél. Vélin nær tíu metra inn í skóginn þannig að akstursbrautir um skóginn geta verið með allt að 20 metra millibili.

Erfið vinna

Að sögn Kristjáns reynist vélin mjög vel en þótt þessi aðferð við skógarhögg sé ekki eins líkamlega erfið og vinna með keðjusög segir hann að eftir langan vinnudag hringli allt í höfðinu á honum enda starfið tæknilega mjög flókið og margt sem þarf að fygljast með. Búnaður vélarinnar er mikill. Tölva er mötuð á ákveðnum upplýsingum áður en hafist er handa, hvaða lengdir á að saga trén í, sverleiki trjánna og hver trjátegundin er. Vélin tekur misjafnlega fast á trjánum eftir tegundum. Auk þess að stýra sjálfri vélinni, bæði þegar hún er færð til í skóginum og þegar unnið er með gálgann á henni þarf vélamaðurinn að velja þau tré sem á að fella og hvaða tré eru vænleg til áframhaldandi vaxtar. Gæta þarf vel að því að þau tré sem eiga að standa skemmist ekki þegar vélin athafnar sig í skóginum, huga verður að því að vélin spýti út úr sér bolunum á réttum stað og svo framvegis.

Eins og skógarhöggsmenn þekkja vel er mikilvægt að blaðið í keðjusöginni bíti vel og góður skógarhöggsmaður gætir þess að saga ekki í jörð því þá er bitið fljótt að fara úr keðjunni. Á skógarhöggsvélinni stóru er sög sem svipar til hefðbundinnar keðjusagar en með lengri og grófgerðari keðju. Vandi er að sjá til þess að keðjan lendi ekki í mold eða grjóti þegar sögin er á löngum gálga, allt að tíu metra frá stýrishúsinu. Ef skipta þarf um keðju tapast dýrmætur tími í skóginum. Kristján segir að um fimm mínútur taki að skipta um keðju en hver mínúta er dýrmæt. Mikilvægt er að hver vinnustund nýtist sem best enda mikil fjárfesting í einni vél af þessum toga. Hann segir að hingað til hafi honum tekist að láta keðjuna endast daginnn og jafnvel tvo daga án þess að skipta um og brýna.

Æfingin skapar meistarann

Kristján hefur náð ótrúlegri leikni á vélina á stuttum tíma. Hann æfði sig 10 daga í vélarhermi í Svíþjóð undir leiðsögn kennara á vegum framleiðanda vélarinnar. Tveir Svíar komu svo hingað til að fylgja vélinni úr hlaði og leiðbeindu Kristjáni um notkun hennar í fimm daga. Þeir höfðu á orði að árangur Kristjáns væri undraverður.

Hann segist vera kominn upp í að fella um 60 tré á klukkutíma og þá er allt meðtalið, að saga tréð, búta það niður, afkvista og setja í litlar stæður. Þetta er um tíu sinnum meira en einn maður með keðjusög nær að gera á klukkustund. Algengt er að mjög færir skógarvélamenn taki um 100 tré á klukkutíma og Kristján stefnir að því marki. Þeir allra færustu ná 120 trjám sem telst frábær árangur en allt fer þetta auðvitað eftir aðstæðum á hverjum stað. Eftir þrjá til fjóra mánuði frá afhendingu vélarinnar verður Kristján aftur í sambandi við kennarana sænsku, fer annað hvort utan sjálfur til endurmenntunar eða Svíarnir koma að utan. Þá verður metið hvað hann gerir rétt og í hverju hann getur bætt sig svo afköstin verði sem best og nýting vélarinnar í hámarki.

Næg verkefni eru fram undan fyrir skógarhöggsvélina og má segja að samkomulag liggi fyrir um verkefnin næstu fimm árin. Skriflegur samningur hefur verið gerður við Skógrækt ríkisins til þriggja ára sem var forsenda þess að hægt væri að ráðast í kaup á vélinni. Vélin verður á ferðinni um landið og trúlega liggur leiðin fljótlega vestur í Skorradal en fyrir liggja líka stór grisjunarverkefni á Norðurlandi og víðar.

Hér má sjá myndband sem Hlynur Gauti Sigurðsson hjá Héraðs- og Austurlandsskógum setti saman eftir að vélin kom til landsins í lok mars 2014.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson