(Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)
(Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)

Tækifæri fyrir íslenska skógareigendur?

Með uppvaxandi skógum gefast ný tækifæri sem grípa má til að styrkja atvinnu- og mannlíf í byggðum landsins. Skógrækt ríkisins barst bréf frá Kanada með skemmtilegri hugmynd. Hvernig væri að bjóða ferðafólki skógaferð um Ísland með fræðslu og jafnvel gróðursetningu?

Kanadísk kona, Judy Pamenter í Montréal, skrifaði Skógrækt ríkisins bréf í síðustu viku og hafði þá lesið greinina Forestry in a treeless land sem er að finna á vefnum skogur.is. Hún lýsti ólíkri stöðu Kanadamanna sem hefðu alls staðar tré og skóga í kringum sig og tækju skóga sína sem sjálfsögðum hlut. Þegar hún las um það verkefni Íslendinga að græða landið skógi á niðurskurðartímum skaut upp í kollinn á henni hugmynd sem hún vildi koma á framfæri við landsmenn hér. Hún taldi mögulegt fyrir íslensk skógarsamtök að þróa skemmtileg ferðalög um landið þar sem farið yrði í tjaldútilegur, hlýtt á fyrirlestra, sótt námskeið í gróðursetningu trjáplantna og jafnvel gætu ferðalangarnir fengið að gróðursetja líka. Hagnað og frjáls framlög þátttakenda mætti svo nota til rannsóknarstarfs og nýskógræktar.

03082012-(4)Judy Pamenter bendir á að hérlendis hafi verið skipulagðar prjónaferðir um landið og fyrst hægt sé að fá fólk til að borga fyrir að ganga um landið niðursokkið í að prjóna sokka og hekla, ótruflað af fegurð landsins, ætti eins vel að vera hægt að bjóða upp á skógarferðir um landið líka.

Þessari hugmynd er hér með komið á framfæri við lesendur vefsins skogur.is. Ef til vill eru þarna úti skógareigendur sem vilja henda þetta á lofti og taka saman höndum við aðra skógareigendur, skógræktarfélög eða aðra. Judy telur að þetta sé tækifæri fyrir samtök í skógrækt. Það er varla á verksviði opinberrar stofnunar eins og Skógræktar ríkisins að standa fyrir þessu þótt stofnunin gæti tekið þátt í því með ýmsum hætti, til dæmis með ráðgjöf og fræðslu. Skógræktarfélög gætu hins vegar haft frumkvæði að svona nokkru, ellegar þá Samtök skógareigenda svo dæmi séu tekin.

Í þessu sambandi er gaman að benda á það sem gert er á einu af skóglendissvæðum Englands, þjóðgarðinum New Forest National Park syðst á Englandi. Á svæðinu sem kallast New Forest er eitt af stærstu svæðunum á Englandi þar sem er lítt snortin náttúra með opnum úthagasvæðum, heiðalöndum og skógi. Þetta er í suðausturhluta Englands og nær yfir suðvestanvert Hampshire-hérað, inn í suðausturhluta héraðsins Wiltshire og austasta hluta Dorset. Þjóðgarðurinn nær aðeins yfir hluta þess svæðis sem kallað er New Forest. Þarna er fjöldi lítilla þorpa og kaupstaða enda er þetta í einhverjum þéttbýlasta hluta Englands. Samt hefur tekist að varðveita skóglendi og náttúru á svæðinu.

Heitið New Forest, nýi skógurinn, er reyndar mjög gamalt. Upphaflega var mestallt England vaxið laufskógi sem óx upp eftir ísöldina, fyrst með birki en síðan smám saman með beyki- og eikarskógum. Allt frá bronsöld hefur verið gengið á skógana og land skipulagt til landbúnaðar og annarra nota og á endanum var lítið eftir af náttúrlegum skógum. „Nýi skógurinn“ var tekinn frá og gerður að konunglegum veiðilendum á dögum Vilhjálms fyrsta Englandskonungs í kringum árið 1079. Einkum var sóst þar eftir að veiða dádýr. Fólk var rekið burtu af yfir 20 afskekktum býlum og litlum þorpum sem þarna voru til að búa til leiksvæði fyrir aðalinn. Enn er talsvert af skóginum þarna í eigu bresku krúnunnar og það land er að mestu leyti innan þjóðgarðsins.

Boðið er upp á skemmtilegar ferðir um þetta svæði þar sem skógurinn er í öndvegi. Fólk getur tekið rútu og fengið leiðsögn, tekið reiðhjól með og hoppað út þar sem það langar til að skoða sig um enda margt að sjá, bæði sem snertir náttúruna, söguna og byggðina á svæðinu. Sjá nánar á vefsíðu þjóðgarðsins, http://www.newforestnpa.gov.uk/.

Það sem hér hefur verið lýst á Englandi er vissulega gjörólíkt íslensku skóglendi og ferðaþjónustan bundin við einn tiltekinn skóg en samt sem áður dæmi um hvernig skógur getur verið þungamiðjan í ferðaþjónustu. Hver veit nema tækifæri séu fyrir íslenska ferðaþjónustu að nýta sér skóga landsins og jafnvel að búa svo um hnútana að sú starfsemi styðji við skógræktarstarfið í landinu.

Áðurnefnd Judy Pamenter stefnir að því að heimsækja Ísland á næstu árum ásamt eiginmanni sínum. Þá langar hana að sjá íslenska skóga og hitta íslenskt skógarfólk. Áhugasamir geta sent henni línu á netfangið jgpmntr2@gmail.com.