Eyðing hitabeltis-og regnskóga er meginástæða loftslagsbreytinga í heiminum, skógarhögg losar meira koldíoxíð út í andrúmsloftið en iðnaður, bifreiðar, flugvélar og önnur olíuknúin farartæki. Þetta er staðhæft í nýrri skýrslu regnskógarfræðinga, en heimildir þeirra eru gögn frá Sameinuðu þjóðunum. Breska dagblaðið The Independent segir frá þessu í dag.

Hitabeltisskógar eru sagðir lungu jarðar en þrátt fyrir það er þeim tortímt á ógnarhraða, trén eru höggvin og nýtt á margan hátt, eða bara brennd til að ryðja land fyrir akuryrkju, nýbyggð eða öðru. Regnskógarfræðingarnir segja ekki á allra vitorði að skógareyðing losi um fjórðung alls koldíoxíðs sem berist út í andrúmsloftið og valdi gróðurhúsáhrifum. Samgöngur á landi og iðnaður losi 14% , flug 3%.

Á sólarhring valdi skógareyðing jafn mikilli koldíoxíðlosun og yrði ef flogið væri með 8 miljónir manna frá Bretlandi að Bandaríkjunum á sama tíma. Skógareyðing sé skýringin á því að Indónesía og Brasilía losi meira koldíoxíð út í andrúmsloftið en nokkur önnur ríki, nema Bandaríkin og Kína. Því hvorki Indónesar né Brasilíumenn eigi mikinn þungaiðnað.

Skýrsluhöfundar segja auðugum ríkjum í lófa lagið að stemma stigu við þessari miklu skógareyðingu, styrkja þurfi stjórnvöld í regnskógarlöndum, og beita þau þrýstingi, þannig að hagstæðara verði fyrir þau að rækta tré, og vernda skóga, en eyða þeim.

 

Af fréttavef Ríkisútvarpsins: http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item154047/

Ítarefni: Global Canopy Programme