Skógarhöggskeppni, hlaup, skemmtiatriði, skógarlistaverk og margt fleira

Dagskrá Skógardagsins mikla í Hallormsstaðaskógi laugardaginn 24. júní hefst formlega klukkan 13 í Mörkinni. Klukkutíma fyrr hefst skógarhlaup sem þreytt verður um fjölbreytilega skógarstíga og sömuleiðis hin einstæða og stórskemmtilega Íslandsmeistarakeppni í skógarhöggi. Kynnir á hátíðinni verður Jón Guðmundsson, fyrrverandi barnaskólakennari.

Á hátíðinni í Mörkinni kemur kammerkór Egilsstaðakirkju fram, skógar- og nautgripabændur bjóða upp á heilgrillað naut og meðlæti, pylsur verða grillaðar í hundraðavís og gerðar lummur, ormabrauð og ketilkaffi að hætti skógarmanna. Einnig býður Félag sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum upp á grillað lambakjöt.

Margt verður annað til skemmtunar. Gestir geta spreytt sig í bogfimi, ýmsar þrautir verða fyrir börnin og hægt að fá að tálga. Fram kemur listafólk, Anya Shaddock, sem nýlega sigraði í Samfés-keppninni, Kristjana Stefánsdóttir og Svavar Knútur koma fram og fleira mætti nefna.

Eins og ávallt áður eru allir hjartanlega velkomnir á Skógardaginn mikla og hafið í huga að í skógi er alltaf gott veður. Skógardagurinn mikli verður nú haldinn í þrettánda sinn. Hann er samvinnuverkefni Skógræktarinnar, Félags skógarbænda á Austurlandi, Barra gróðrarstöðvar og Skógræktarfélags Austurlands með tilstyrk sveitarfélaga og fjölmargra fyrirtækja og stofnana.