Föstudaginn 11. júlí kl.12:00 verður haldinn skógardagur í Gunnarslundi í Haukadal. Eins og flestir vita þá var gróðursettur minningarlundur um Gunnar Freysteinsson og reist minningarsúla árið 1999 í Haukadal. Var þetta unnið í góðri samvinnu við ættingja Gunnars og vinnufélaga og vini hans í skógargeiranum.

Nú þarf að taka til hendinni í lundinum og verður megin verkefni dagsins að hlúa að plöntum og stígum í Gunnarslundi. Auk vinnunnar er markmið dagsins að ættingjar og vinir Gunnars taki þátt í ýmsum uppákomum sem verða m.a. trjámælingar í grenilundum undir dyggri stjórn Einars Gunnarssonar, farið verður í gegn um nýja þrautabraut í skóginum þar sem gestir geta spreytt sig á drumbakasti og fleiri skógaríþróttum. Auk þessa verður hellt upp á skógarkaffi og grillað í Haukadal og aldrei að vita nema einhver taki með sér söngbók.