Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá á fallegum sumadegi 2017. Mynd: Edda S. Oddsdóttir
Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá á fallegum sumadegi 2017. Mynd: Edda S. Oddsdóttir

Margt spennandi að upplifa og skoða

Hálfrar aldar vísindastarfi á Rannsókna­stöð skógræktar Mógilsá verður fagnað í skóg­inum við stöðina sunnudaginn 20. ágúst. Haldinn verður skógardagur að skógar­manna sið og gestir fá að kynnast þeim spennandi verkefnum sem starfsfólk stöðvar­innar vinnur að.

Lögð verður áhersla á starfið á Mógilsá og starfsfólk kynnir verk sín og verkefni. Sýnd­ar verða trjámælingar, pöddur, klipping stikl­inga, efni um kolefnisbindingu og margt fleira. Benedikt Axelsson sýnir réttu handbrögðin við tálgun og fólk fær að spreyta sig með hnífinn. Bakaðar verða lummur og hitað ketilkaffi með meiru eins og skylt er á skógardegi. Skógrækt er ekki bara ræktun heldur líka nytjar og því er líka við hæfi að kljúfa við og saga, jafnvel að fara í axarkast og annað sem skógarmönnum kann að detta í hug.


Í tilefni hálfrar aldar afmælisins verða líka gróður­settar 50 eikur á Mógilsá sem er ekki síst táknrænt fyrir alþjóðlegt samstarf stöðv­arinnar og sömuleiðis fyrir sífellt betri aðstæður til skógræktar á Íslandi með vax­andi grósku, skjóli og betri skilyrðum. Fyrr­verandi starfsfólk Mógilsár er velkomið að koma til að gróðursetja eikurnar og minnast um leið afmælisins.

Undanfarið hefur Valdimar Reynisson, skógarvörður á Vesturlandi, unnið ásamt starfsmönnum sínum að lagfæringu og kurl­un stíga í skóginum á Mógilsá. Sömu­leiðis er unnið að endurbótum og merking­um trjásafnsins og Lars Nilsen, skóg­tækn­ir og þúsundþjalasmiður hjá Skóg­ræktinni á Vöglum, hefur búið til bekki og þrauta­brautir fyrir börn.

Allt áhugafólk um skógrækt, skógarnytjar, skógarmenningu og skógarvísindi er boðið velkomið á afmælishátíðina milli klukkan 14 og 17 sunnudaginn 20. ágúst.

Texti: Pétur Halldórsson