Mun meiri framlegð í hefðbundnum landbúnaði ef hann er blandaður skógi

Sýnt hefur verið fram á að afrakstur af hefðbundnum landbúnaðargreinum, akuryrkju og kvikfjárrækt, eykst stórlega ef skógrækt er fléttað inn í starfsemina. Ekki er ástæða til að ætla annað en þetta gildi á Íslandi eins og annars staðar. Í Evrópu starfa sérstök samtök sem stuðla að því að tré verði meira notuð á bændabýlum og að bithagar búpenings auðgaðir með trjám. Samtök þessi heita European Agroforestry Federation, skammstafað EURAF, og nú eru í þeim um 250 félagar frá 18 Evrópulöndum

Skógarbúskapur í Evrópu

Íslenska orðið skógarbúskapur er tilraun hér á vef Skógræktar ríkisins til að þýða erlenda orðið ,agroforestry' og verður notað þar til stungið verður upp á öðru betra. Önnur hugmynd er ,landbúnaðarskógrækt' en hvorugt hugtakið er fyllilega lýsandi.  Þessi grein landbúnaðar felst í því að stunda trjárækt á sama landsvæði og búfjárrækt eða akuryrkju, ellegar allt þetta þrennt. Trén má rækta á afmörkuðum blettum eða með fram ökrum, túnum og beitarhólfum. Aðferðir skógarbúskapar má flétta inn í allar búgreinar alls staðar í Evrópu, segir á vef samtakanna, www.agroforestry.eu

Þegar skógarbúskapur er tekinn upp eru annað hvort gróðursett tré á bújörð þar sem stundaður er hefðbundinn landbúnaður ellegar að skóglendi er tekið til landbúnaðarnota. Þá er til dæmis notað hugtakið silvopasture sem við gætum kallað skógarbeit á íslensku. Ýmsan annan landbúnað má líka fella inn í skóglendi án þess að fjarlægja allan skóginn. Bent er á að í Evrópu sé löng hefð fyrir slíku samspili skóga og búskapar og það hafi bæði menningarlegt gildi og umhverfisgildi. Miklir möguleikar felist í framsæknum og nútímalegum skógarbúskaparháttum sem þróaðir hafa verið í rannsóknar- og þróunarmiðstöðum vítt og breitt um Evrópu undanfarna tvo áratugi eða svo.

Hefur viðtekin landbúnaðarstefna verið að drepa skógarbúskapinn?

Talað er um tvær stoðir sem skotið hefur verið undir sameiginlegt landbúnaðarkerfi ESB, svokallað CAP-kerfi. Í seinni stoðinni felst stuðningur við byggðaþróun og umhverfi. Á vef EURAF er bent á að aðferðir skógarbúskapar hafi fram undir þetta ekki verið teknar með í reikninginn í landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins. Afleiðingin hafi verið sú að milljarðar trjáa hafi verið felldir vítt og breitt um Evrópu. Nú sé hins vegar komin dálítil hvatning til að skipuleggja svæði undir skógarbúskap en lagskipt stuðningskerfið við landbúnað í Evrópu virðist hafa dregið úr evrópskum bændum að taka upp aðferðir skógarbúskapar.

Skógarbúskapur - sjálfbær landnýting í þágu framtíðar Evrópu

Með skógarbúskap fæst margvíslegur hagur. Þetta er kerfi sem hefur lágmarks kolefnislosun í för með sér en býr aftur á móti til mikinn lífmassa. Aðferðir skógarbúskapar þjóna fjölmörgum þáttum vistkerfisins en skila bóndanum samt sem áður mikilli framleiðni. Hér græða allir, til dæmis bæði bændur og náttúruverndarfólk. Af þjónustu við vistkerfin má nefna kolefnisbindingu, temprun vatnasviða sem minnkar flóðahættu, minni efnamengun berst út í umhverfið og minna tapast af jarðvegsefnum. Sömuleiðis dregur skógarbúskapur úr neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga á akra og á búpening. Trén veita dýrmætan skugga yfir allraheitasta tíma sumarsins sem skiptir æ meira máli eftir því sem loftslagið hlýnar. Síðan njóta bændurnir tekna af bæði skógarafurðum og afurðum akuryrkju eða kvikfjárræktar. Þeir njóta líka kosta blandaðra búsvæða plöntu- og dýrategunda þar sem líffræðileg fjölbreytni verður meiri. Í slíku umhverfi er meiri vernd gegn óværu og sjúkdómum því fjölbreytilegt vistkerfið getur sjálft temprað áhrif skaðvaldanna. Loks skal nefnt að landslag og umhverfi verður meira aðlaðandi og slíkt styður við „búgreinar“ eins og ferðamennsku og útivist.

Skógarbúskapur í endurskoðaðri landbúnaðaráætlun ESB

Samtökin EURAF benda á að með því að flétta skógarbúskap inn í nýja sameiginlega landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins sem nú er í endurskoðun sé stuðlað að grænni landbúnaði í Evrópu. Samtökin hafa sett fram ítarlegar tillögur í þessum efnum sem snerta báðar stoðir evrópska stuðningskerfisins.

Meiri framlegð

Á þessu sést að Evrópumönnum er alvara með að skógarbúskapur sé nokkuð sem stuðla beri að og rannsóknir hafa sýnt að framlegð er samanlagt meiri á býlum sem rekin eru eftir aðferðum skógarbúskapar en á einsleitari býlum þar sem bændur sérhæfa sig í tilteknum greinum akuryrkju eða kvikfjárræktar án þess að nýta sér allt það sem skógur, stök tré og skjólbelti gefa. Í frönskum rannsóknum hefur verið sýnt fram á að á 100 hektara svæði var afrakstur skógarbúskapar svo mikill í trjáviði og landbúnaðarafurðum að þurft hefði 136 hektara ef skógræktin, akuryrkjan og kvikfjárræktin hefði verið á aðskildum svæðum.

Minni hætta á vindfalli

Frakkar hafa líka séð með athugunum sínum að tré í skógarbúskap standast betur stórviðri en tré í hefðbundnum nytjaskógum. Tré sem standa í röðum milli reita á ökrum, stök á beitilöndum eða í litlum lundum mynda sterkara rótarkerfi en tré sem standa þétt í einsleitum skógi. Ofviðri sem gekk yfir Frakkland í desember 1999 var Frökkum hörð lexía. Áætlað er að um 300 milljónir trjáa hafi fallið í veðrinu. það nam um þremur prósentum af skógum landsins.

Skjólbelti sem sumir íslenskir bændur rækta með fram túnum sínum og ökrum eru vísir að skógarbúskap. Líklega má þó segja að þær aðferðir sem notaðar eru við skógrækt á Vestfjörðum undir merkjum Skjólskóga séu það sem kemst næst þessari hugmyndafræði hérlendis. Ástæðulaust er að ætla annað en að skógarbúskapur sé hagkvæm leið til að auka framlegð íslenskra bændabýla rétt eins og er á meginlandi Evrópu.

Hér er áhugaverð glærusýning frá Frakkanum Christian Dupraz, einum fremsta vísindamanni Evrópu á sviði skógarbúskapar

Hér er stutt myndband þar sem Dupraz fer yfir helstu kosti aðferðarinnar

Hér er lengra myndband frá því þegar fjallað var um skógarbúskap á Evrópuþinginu

Hér enn lengri fræðslumynd um framtíð landbúnaðar sem þar er einmitt sögð felast í skógarbúskap. Alhliða fræðsla um umhverfismálin.

Og loks meiri fróðleikur um skógarbúskap, meðal annars um hvernig rætur trjánna leita neðar þegar þau vaxa við kornakra og ná þannig betur til rakans en líka um meiri kolefnisbindingu í skógarbúskap en venjulegum búskap.