Vill nýta betur flettingarhæft efni úr annarri grisjun

Bjarki Jónsson, skógarbóndi á Ytri-Víðivöllum II Fljótsdal, hefur sett á laggirnar sögunarmyllu og afurðastöð fyrir skógarbændur í gömlu fjárhúsunum á bænum. Á jörðinni er töluvert af flettingarhæfu efni úr um 45 ára gömlum lerkiskógum sem komnir eru að annarri grisjun. Uppbygging sem þessi er forsmekkurinn að því sem koma skal vítt og breitt um landið eftir því sem skógarnir vaxa upp. Smám saman verður til atvinnuvegur með sjálfstæðum fyrirtæjum sem veita fjölda manns vinnu og búa til verðmæti í þjóðarbúið

Rúnar Snær Reynisson fréttamaður ræddi við Bjarka Jónsson í fréttum Sjónvarpsins í gær.

Í fréttinni segir meðal annars:

Á Ytri-Víðivöllum II í Fljótsdal býr Bjarki Jónsson á samt fjölskyldu sinni. Bjarki er skógarbóndi og ætlar með okkur út í skóg að sækja að gamni einn fermetra af pallaefni úr 45 ára gömlu lerki. „Sverustu trén hérna hjá okkur eru orðin 35-6 sentimetrar í þvermál í bolþykkt og þau eru 12-16 metra há. Og þetta er nánast allt flettiefni. Það er hellingur af efni til og núna er tíminn,“ segir Bjarki. 

Í Fljótsdal eru elstu nytjaskógar landins og komið að svokallaðri annarri grisjun sem gefur alvöru timbur. Skógarbændur hafa ásamt Austurbrú verið að meta hvenær skógarnir gætu staðið undir afurðastöð. Bjarki beið ekki boðanna heldur stofnaði fyrirtækið Skógaafurðir, breytti gömlu fjárhúsi í afurðastöð, setti upp sögunarmyllu og aðstöðu til að breyta drumbum í verðmæti. „Hér er allavega kominn einhver 7.000 kall á borðið. Þetta er sennilega einn fermetri af pallaefni hérna. Og þetta skeður ekki á löngum tíma,“ segir hann. „Gríðarlega afkastamiklar sagir sem við fluttum inn sjálf. Þannig að þetta er bara tilbúið til þess að leggja. Nema fyrst þarf að þurrka.“

Bjarki er að setja upp gufuþurrkofn með styrk frá Nýsköpunarmiðstöð og þannig fæst fyrsta flokks timbur. Mikilvægt er að nýta allt sem til fellur og afskorningar fara meðal annars í viðarköggla. Þeir eru seldir sem undirburður undir skepnur. Bjarki segir mikilvægt að í hverjum landshluta verði afurðastöð svo grisjunarviður nýtist í fleira en eldivið. „Þetta er bara eins og að vera mjólkurbóndi og ekkert mjólkurbú. Þða þarf að vera einhver bækistöð sem safna upplýsingum um hvar efnið er til og reynir að koma því í verð.  Koma peningunum út úr skógunum því að það eru gríðarleg verðmæti sem liggja þarna.“