Skógræktin hefur gefið út skemmtilegan leik sem fjölskyldan getur spreytt sig á í skógum landsins í sumar. Leikurinn kallast skógarbingó og snýst um að finna ýmis fyrirbrigði í skóginum og haka við líkt og á bingóspjaldi.

Í skógarferðum er gaman að velta fyrir sér því sem fyrir augu ber og stundum eru augljósu hlutirnir ekki það sem fangar hugann í fljótu bragði. Laufblaðið á trénu, steinninn í götunni eða köngullinn á greininni eru dæmi um algenga hluti í skóginum. En þar flögra líka um fuglar og þegar betur er gáð finnum við kannski kóngulóarvef og litla sæta pöddu skríðandi um. Í skógarbingóinu eru fimmtán fyrirbæri sem gaman er að spreyta sig á að finna í skóginum, ekki síst fyrir unga skógargesti sem eru að læra um undur náttúrunnar.

Skógarbingóinu má hlaða niður í snjalltæki eða prenta út eftir því sem hentar hverjum og einum. Til að krossa við er auðvitað best að hafa spjaldið á pappír en svo má líka opna skjalið í forritum sem geta opnað pdf-skjöl og gera kleift að merkja eða skrifa inn á þau. Dæmi um slíkt forrit er Xodo PDF Reader & Editor.

Reglur

Í skógarbingói getur fólk búið sér til reglur að vild. Ein hugmynd er að hver þátttakandi hafi sitt spjald og fari um skóginn til að leita að þeim fyrirbærum sem sjást á spjaldinu. Sá þátttakandi sem verður fyrstur til að finna alla hlutina vinnur. Þá má einnig nota spjaldið til að fræða börnin um fyrirbærin í skóginum. Í hvert sinn sem merkt er við eitthvert fyrirbæranna á spjaldinu er rætt um viðkomandi fyrirbæri, hvort það sé algengt í skóginum eða sjaldgæft, hvort til séu ýmsar útgáfur af því, hvaða þýðingu það hafi í vistkerfinu og svo framvegis. Skógarbingóið getur verið mikil uppspretta náttúruskoðunar og visku í skóginum. Spjaldið má líka nota að lokinni skógarferð, til dæmis til að stytta börnunum stundir í bílnum, ræða um hvort þau hafi séð öll þessi fyrirbrigði í skógarferðinni og þar fram eftir götunum.

Af hverju býr kóngulóin til vef? Hvað gera pöddurnar? Eru þær fæða fyrir fuglana? Hvenær er birkifræið þroskað? Hvað er í könglinum? Hvert er hlutverk sveppanna? Af hverju breyta laufblöðin um lit á haustin? ...

Skógurinn er uppspretta lærdóms, gleði og vellíðunar.

Góða skemmtun!

#skograektin #Skógarbingó

Niðurhal

Texti: Pétur Halldórsson