Skógræktarráðgjafarnir Borja Alcober og Sherry Curl leiðbeindu skógarbændum á námskeiðinu.
Skógræktarráðgjafarnir Borja Alcober og Sherry Curl leiðbeindu skógarbændum á námskeiðinu.

Gagnlegt til að fylgjast með ræktuninni og skrá íslenska skóga

Tveir hópar skógarbænda sóttu ör­nám­skeið á Egilsstöðum föstudaginn 28. apríl. Þar var fjallað um notkun GPS-forrits í snjallsíma við mælingar á stærð gróður­setningasvæða. Slíkar upplýsingar gagnast skógarbændum við að fylgjast með ræktun sinni og skipuleggja gróðursetningar. Jafn­framt nýtast upplýsingarnar til að skrá flatarmál skógræktar á landinu öllu.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum fór námið fram bæði inni og úti og ljóst að ekki þarf endilega að fara langar leiðir til að stunda útinám, enda ekkert öðruvísi að mæla flatarmál Hótels Héraðs en flatarmál lerkigróðursetningar. Það voru skógræktarráðgjarfarnir Sherry Curl og Borja Alcober sem stóðu fyrir námskeiðunum. Fleiri slík námskeið verða haldin á komandi vikum og mánuðum.

 

Ekki þarf að fara út í skóg til að prófa sig áfram með tæknina. Hér eru nemarnir
að búa sig undir að ganga með tæki sín í kringum Hótel Hérað sem er spölkorn
frá Miðvangi 2-4 á Egilsstöðum þar sem aðalskrifstofa Skógræktarinnar er til húsa.

Um þessar mundir fara líka fram grunnnámskeið fyrir skógarbændur. Eitt slíkt var einmitt  haldið á Akureyri á föstu­dag í umsjá Bergsveins Þórssonar og Rakelar Jónsdóttur.

Vert er að minna á myndband sem Skógræktin hefur gert þar sem sýnd er notkun GPS-forrita í snjallsímum til skrán­ingar gróðursetningarsvæða.

Fræðslumyndband:

Texti: Pétur Halldórsson
Heimild og myndir: Þröstur Eysteinsson