Við afhendinguna í móttökusal Veðurstofu Íslands í gær. Frá vinstri: Elisabeth Hauge, Björn Halldórs…
Við afhendinguna í móttökusal Veðurstofu Íslands í gær. Frá vinstri: Elisabeth Hauge, Björn Halldórsson, Sigrún Magnúsdóttir og Völundur Jóhannesson

Þar sem áður var örfoka sandur ...

Hjónin Elisabeth Hauge og Björn Halldórsson á Valþjófsstöðum í Núpasveit við Öxarfjörð hlutu í gær verðskuldaða viðurkenningu fyrir þrotlaust starf sitt í skógrækt og annarri landgræðslu. Sigrún Magnúsdóttir afhenti þeim náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti á degi íslenskrar náttúru Völundi Jóhannessyni sem sýnt hefur mikla elju við ræktun í yfir 600 metra hæð yfir sjó á austanverðu hálendi Íslands.

Við athöfn sem fram fór á Veðurstofu Íslands á degi íslenskrar náttúru sagði ráðherra þetta um ræktunarstarf þeirra sem viðurkenninguna hlutu:

Það er ekki ofsögum sagt að áhugi, eljusemi og kraftur einkenni hjónin Elisabeth Hauge og Björn Halldórsson þegar afrakstur landgræðslu og skógræktar er skoðaður. Þar sem áður var örfoka sandur og berar heiðar eru nú ræktuð tún með myndarlegum skjólbeltum og birkiskógum. Það er ekki sjálfgefið að hægt sé að stunda slíka uppgræðslu á sandjörð við ysta haf þar sem skafrenningur og vetrarhörkur geta tafið fyrir uppvexti plantna. Þau hjón hafa þó ekki látið það stöðva sig, nema síður sé.

Björn og Elisabeth hafa stundað skógrækt síðan fyrir 1980 en tóku skrefið til fulls þegar þau gerðu skógræktarsamning við Norðurlandsskóga um ríflega 100 hektara land á jörð sinni.  Skógræktarskilyrði geta ekki talist hagstæð á Valþjófsstað, en árangur skógræktarinnar er aðdáunarverður því með natni þeirra og útsjónarsemi hefur skógurinn vaxið og dafnað.  

Þá hafa þau verið þátttakendur í verkefni Landgræðslu ríkisins, Bændur græða landið, frá 1995 og fengið styrk úr Landbótasjóði til verkefna sem hafa skilað góðum árangri. Landgræðsluverkefni þeirra ná frá fjöru til heiða og hef ég heyrt að Núpaheiði, þar sem þau hafa látið til sín taka, sé með snyrtilegri heiðum landsins.

Það krefst sérstakrar útsjónarsemi og skipulags að stunda landgræðslu og skógrækt á lítilli jörð en jafnframt stunda þar hefðbundinn búskap með 500 fjár.

Sjálfbærni er gegnumgangandi leiðarljós í búskapnum og til að mynda hafa þau komið sér upp heimarafstöð sem knýr ekki bara tæki og stórvirkar vinnuvélar heldur einnig rafbíl heimilisins sem nýttur er til alls innansveitar aksturs.

Þá er nýtni og góð umgengni þeim í blóð borin - það sem til fellur við búskap er endurnýtt og gert að verðmætum. Rekaviðurinn í fjörunni er gott dæmi um það en honum er safnað saman og þegar Björn hefur farið um hann með stórviðarsög, sem knúin er rafmagni frá heimarafstöðinni, fæst úr honum myndarlegasta smíðatimbur.

Þau Björn og Elísabeth eru einstaklega nákvæm og samviskusöm við allar framkvæmdir í uppgræðslustarfi sínu og miklir fyrirmyndar skógar- og landgræðslubændur, sem yrkja jörð sína af einstakri alúð og natni við erfiðar aðstæður út við ysta haf.

-----

Á meðan hjónin á Valþjófsstöðum glíma við hafið hefur Völundur Jóhannesson gert norðvestanvert hálendi Íslands að öðru heimili sínu. Svo tengdur er hann hálendinu að hann hefur ýmist verið kallaður „vörslumaður hálendisins“, „hálendishöfðinginn“ eða jafnvel „hálendisvættur“.

Hann er sannkallað barn víðernis og hálendis, þekkir norðvestanverðan hluta þess eins og lófann á sér og er óendanlegur fróðleiksbrunnur um það.

Völundur stofnaði Ferðafélag Fljótsdalshéraðs og hafði ásamt öðrum forgöngu um byggingu hálendisskála á nokkrum stöðum. Enn eru skálar byggðir eftir hans hugmyndum þó hann sé hættur störfum í félaginu en margir hverjir eru vinsælir ferðamannastaðir.

Þar hefur Völundur sýnt og sannað að gróður fær þrifist í meiri hæð og við erfiðari aðstæður en menn hafa almennt talið. Þar, í um 640 metra hæð, hefur hann með natni og þrautseigju komið upp álitlegum grasagarði og fengið yfir 200 tegundir til að þrífast. Fæstir ættu von á að sjá svo fjölskrúðugan gróður á hálendinu þar sem frystir snemma á haustin, vetur eru harðir, snjóa leysir seint og almennt er varla stingandi strá að sjá. Hefur hann meðal annars fengið birki til að þrífast á svæðinu en þeir voru fáir sem töldu unnt að rækta birki í 640 metra hæð. Er haft eftir sérfræðingum að með framtaki Völundar hafi skógræktarmörk í raun færst upp um 100 metra, úr 500 í 600 metra.

Skálinn og gróðurreitur Völundar stendur við Grágæsavatn, sunnarlega á Brúaröræfum vestanverðum. Hefur Völundur meðal annars haft fyrir því að láta aka þúsundum rúmmetra af möl og grjóti í bakkann á vatninu í því skyni að verja gróðurinn.

Þá er Völundur einnig frumkvöðull, sem og á svo mörgum sviðum, í sjálfbærri orkuöflun, en hann nýtir sólarorku í skála sínum í Grágæsadal.

Völundur er ekki síst þekktur fyrir hugsjón sína þegar kemur að vernd hálendisins og var fyrstur manna til að vekja athygli Íslendinga á fegurð þess.

Völundur Jóhannesson hefur með áhuga sínum og þrautseigju opnað augu margra fyrir því að þótt aðstæður séu víða óblíðar og óhentugar til ræktunar og landgræðslu sé vel hægt að fá gróður til að dafna og að fyrirframgefnar hugmyndir um hvað sé lífvænlegt gróðurlendi þurfi ekki alltaf að eiga við rök að styðjast.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson