Hráefni, í þessu tilfelli blóðberg, komið í eimingartækin, tilbúið til eimingar.
Hráefni, í þessu tilfelli blóðberg, komið í eimingartækin, tilbúið til eimingar.

Ilmolíur úr íslenskum trjám

Á bænum Rauðsgili í Reykholtsdal fram­leiðir Hraundís Guðmundsdóttir skóg­fræð­ingur ilmolíur úr íslenskum trjám. Með olí­unum er til dæmis hægt að flytja skógar­ilminn með sér heim í stofu.

Hraundís er skógræktarráðgjafi hjá Skóg­ræktinni og starfar fyrir skógarbændur á Vesturlandi. Þar fyrir utan rekur hún fyrir­tækið Hraundís ehf. og nýtir hráefni úr skóginum sínum í Reykholtsdal. Þar er af mörgu að taka og má segja að ilmolíu­framleiðslan sé eins konar hliðargrein skógarumhirðunnar. Trén eru snyrt og það sem til fellur má nota til að eima dýrmætar ilmolíur.

Þekkingu sína sótti Hraundís til Bandaríkjanna en ilmolíugerð er að heita má óplægður akur hérlendis. Iðnin stendur þó á gömlum merg í heiminum og með ilmolíugerð fást gjarnan afurðir sem seldar eru mjög dýru verði.

Hraundís segir að ilmkjarnaolíur sé hægt að nota á margan hátt. Þær séu frábær híbýlailmur til að hreinsa loftið á heimilinu, ekki síst á veturna þegar fólk loftar minna út. Sérstaklega séu ilmkjarnaolíur af barrtrjám góðar enda séu þær bakteríudrepandi. Til dæmis segir hún gott að setja einn dropa af ilmkjarnaolíu af barrtrjám í peysuna hjá barni sem er að kvefast en olíurnar séu sterkar þannig að ekki sé ráðlegt að setja þær beint á húðina.

Þá henta ilmkjarnaolíur vel til heimilisþrifanna, segir Hraundís. Með því að setja nokkra dropa í þvottavélina fáist frísk­ur náttúrlegur ilmur af þvottinum og eins gefi nokkrir dropar í skúringavatnið góðan ilm í húsið. Enn eitt ráð er að setja tvo dropa af ilmkjarnaolíu í blað af klósettpappír sem sett er í ryksuguna og þá kemur góður frískandi ilmur frá ryksugunni.

Í nýju myndbandi fylgir Hlynur Gauti Sigurðsson, einnig skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni á Vesturlandi, Hraundísi út í skóg þar sem hún tekur hráefni til ilmolíugerðar og sýnir svo hvernig framleiðslan fer fram. Þetta er eitt af ótal dæm­um um hvernig nýta má skóginn, gera úr honum verðmæti og skapa atvinnu.

Ilmurinn - myndband

Texti:Pétur Halldórsson