Dróninn eBee tilbúinn til flugs.
Dróninn eBee tilbúinn til flugs.

Auðveldar gerð ræktunaráætlana

Síðasta hálfan mánuðinn eða svo hafa norsku feðgarnir Pål Hanssen og Thore G. Hanssen dvalið á Héraði við loftmyndatökur af skógum. Loftmyndirnar taka þeir með nýjustu tækni, léttbyggðri myndavél sem fest er við fjarstýrt flygildi eða dróna af gerðinni eBee. Þessi tækni nýtist meðal annars mjög vel við gerð ræktunaráætlana í skógrækt.

Pål Hansen er nýútskrifaður skógfræðingur með meistaragráðu frá norska umhverfis- og lífvísindaháskólanum, Norges miljø- og biovitenskapelige universitet (NMBU). Faðir hans hefur unnið sem landmælingamaður í 43 ár. Þar kemur því saman löng reynsla og nýjasta þekking og tækni. Nýlega stofnuðu feðgarnir saman nýtt fyrirtæki, Geo skog og landbruk A/S.


Verkefni feðganna er tilraunaverkefni þar sem skoðað verður hvort mögulegt sé að mæla með þessari nýju tækni hæð trjáa og fjölda trjáa. Þær upplýsingar nýtast síðan við gerð ræktunaráætlana en mikil þörf er á að slíkar áætlanir fari að líta dagsins ljós. Tæknin sem notuð er í þessu verkefni er ný og eftir því sem næst verður komist er hún ekki í notkun annars staðar enn sem komið er. Frá Héraði halda þeir Pål og Thore norður í land og verða þar við myndatökur í skógum næsta hálfan mánuð.

Þess má til gamans geta að á Fagráðstefnu skógræktar sem haldin var í Borgarnesi 11.-12. mars 2015 hélt Pål Hanssen erindi sem nálgast má á Youtube. Þar lýsir hann þeim aðferðum sem hann þróaði í meistaraverkefni sínu. Dróninn eBee er aðeins um 750 grömm að þyngd, auðvelt að fljúga honum í beina stefnu og ná góðum ljósmyndum af því landsvæði sem kortleggja skal. Ljósmyndirnar þurfa að vera nægilega margar og góðar til að hugbúnaðurinn sem notaður er við kortagerðina geti lagt þær saman og unnið úr þeim samfellt kort. Samkvæmt athugunum sem Pål gerði í meistaraverkefni sínu næst besti árangurinn með því að taka myndirnar úr 120 metra hæð.

Viðbót

Þriðjudaginn 18. ágúst voru þeir feðgar í Skagafirði við mælingar ásamt Johan Holst, skógarbónda á Silfrastöðum. Gerðar voru mælingar á skógum í landi Silfrastaða, Hamars og Kúskerpis. Lárus Heiðarsson, skógræktarráðunautur hjá Skógrækt ríkisins, segir að þessi nýja mælingaraðferð sé bylting. Allar skógmælingar verði nú mun auðveldari og nákvæmari og miklu meiri og áreiðanlegri upplýsingar fáist út úr mælingunum. Loftmyndirnar gefa færi á að draga upp þrívítt líkan af skóginum og upplausnin í myndunum er mjög góð miðað við fyrri aðferðir. Hver díll eða pixill í myndunum er ekki nema um 6 sm. Hér eru myndir sem Johan Holst tók í Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu.


Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Lárus Heiðarsson