Baobab-tré eru meðal ótal lífvera þurrlendisskóga jarðarinnar sem gjarnan er litið fram hjá. Mynd: R…
Baobab-tré eru meðal ótal lífvera þurrlendisskóga jarðarinnar sem gjarnan er litið fram hjá. Mynd: Radek Borovka/Shutterstock

Gervitunglamyndir sýna þurrlendisskógana betur

Skógar eru af ýmsum toga en allir eru þeir ákaflega mikilvægir öllu lífi á jörðinni, þar á meðal fyrir okkur mannfólkið. En af því að sífellt er þjarmað að skógum vítt og breitt um heiminn með skógareyðingu er mál til komið að af þeim berist góðar fréttir.

Niðurstöður nýrrar rannsóknar sýna með hjálp gervitunglamynda að skógar heimsins ná yfir að minnsta kosti 9 prósentum stærra landsvæði en áður var talið. Vegna þess að skógar jarðarinnar eiga drjúgan þátt í að binda þann koltvísýringsútblástur sem veldur loftslagsbreytingum geta þessi tíðindi haft mikil áhrif á gerð loftslagslíkana. Þegar öllu er á botninn hvolft eru þessar fréttir líka þörf áminning mannkyni um hversu mikið er þrátt fyrir allt eftir af náttúrugæðum sem brýnt er að standa vörð um.

Um þetta er fjallað á vefnum Mother Nature Network en grein birtist um rannsóknina í vísindaritinu Science.  Rann­sókn­in varpar ljósi á þurrlendisskógalífkerfi — svæði þar sem mikil uppgufun af landinu og úr gróðri vegur upp á móti takmarkaðri úrkomunni svo skortur verður á vætu. Hér er komið nýtt mat á útbreiðslu þurrlendisskóga jarðarinnar og viðbótin nemur hvorki meira né minna en 467 milljónum hektara (4,67 milljónum km2). Þetta eru þurrlendisskógar sem ekki hafa verið taldir með hingað til í kortlagningu á skógum heimsins.

Þetta svæði er umtalsvert. Það er stærra en næststærsta regnskógasvæði jarðar í Kongólægðinni þar sem Kongófljót rennur um til ósa í Atlantshaf. Og það er gróflega tveir þriðju hlutar af stærð Amazon-frumskógarins. Munurinn er sá að þessir nýfundnu þurrlendisskógar eru dreifðir um jörðina en samanlagt má líkja þessu við það að finna annan Amason-skóg eins og greinarhöfundurinn og vísindamaðurinn Patrick Monahan skrifar í tímaritið Science.

Að sjá ekki skóginn fyrir trjánum


Illgerlegt er að mæla alla skóga jarðarinnar með mælingum á jörðu niðri enda jörðin stór og flæmin mikil. Þess vegna nýta vísindamenn sér gervitunglamyndir gjarnan til að meta stærð skóglendis og slíkar mælingar fara vaxandi eftir því sem tæknin batnar og gögnin úr gervitungl­un­um verða aðgengilegri. Jean-François Bastin, meðhöfundur greinarinnar í Science, bendir þó á að þrátt fyrir þessar góðu myndir utan úr geimnum geti samt verið erfitt að koma auga á þurrlendis­skógana og meta útbreiðslu þeirra.

Í fyrsta lagi, segir hann, er gróðurinn tak­markaður á þessum svæðum og því sýni mælingarnar gjarnan blöndu gróinna og ógróinna bletta þar sem jarðvegsblettir og jafnvel skuggar af trjám trufla. Bastin er vistfræðingur hjá FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, og sérhæfir sig í fjarmælingatækni. Hann segir í öðru lagi að gróðurinn á þurrlendum svæðum jarðarinnar sé nokkuð sér á báti. Til að laga sig þurrkinum hafi hann þróast í þá átt að geta temprað útgufun. Trén séu lauflaus stóran hluta ársins og því sé erfitt að koma auga á þau með hefðbundnum kortlagningaraðferðum.

Og þetta vandamál verður því stærra sem þurrlendissvæði jarðarinnar eru stærri enda ná þau yfir um 40 prósent af öllu landi á jörðinni. Til að greiða úr þessari flækju öfluðu Bastin og félagar sér háskerpugagna úr gervitunglum sem náðu yfir meira en 200.000 reiti á heimskortinu. Í stað þess að reiða sig á reiknilíkön til að áætla hvað merkja skyldi sem þurrlendissvæði lögðust vísindamennirnir sjálfir yfir gögnin og rýndu í hvern einasta reit.


Stærð þurrlendisskóga hafði verið vanmet­in í stórum hlutum Afríku og Eyjaálfu, meðal annars í Ástralíu og á ýmsum eyjum í Kyrrahafi, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar. Mörg af þessum svæðum eru vaxin miklum skógum sem eru  vand­greindir af gervitunglagögn­um, bæði vegna þess að þeir eru gisnir og með höppum og glöppum hvort trén eru laufguð þegar mæl­ingin er gerð. Þeir eru því ólíkt erfiðari viðfangs en grænni og þéttari skógar með samfelldari krónuþekju.

Vísindamennirnir efast um að stærð annars konar skóga hafi verið vanmetin með svipuðum hætti. Fyrri rannsóknir hafi enda bent til þess að af öllu skóglendi jarðarinnar væru það helst mælingar á þurrlendisskógunum sem væru undirorpnar vafa.

Skógur sem taka þarf með í reikninginn


Sú innsýn sem þessi nýja rannsókn gefur í þurrlendisskóga jarðarinnar ætti að gefa vísindamönnum færi á að draga upp skýrari mynd af því hversu mikill koltví­sýringur binst í skógunum um allan heim. Þar með yrði fastara í hendi hversu mikillar hjálpar er að vænta af skógunum í barátt­unni við  þær loftslagsbreytingar sem blasa við á komandi áratugum.

Skógarnir einir bjarga okkur ekki frá ógn­um loftslagsbreytinga af völdum loft­teg­unda sem við sjálf höfum losað út í andrúmsloftið. Samt sem áður eru trén í skógunum einhverjir bestu samherjar okkar í því stríði.

Margir þurrlendisskógar eru auk þess griðastaðir mikillar líffjölbreytni Þar með gætu þetta líka verið góð tíðindi þeim sem berjast gegn fjöldaútrýmingu lífvera á jörðinni. á Havaí vaxa til dæmis meira en 40 innlendar plöntutegundir í þurrlendisskógum, þar á meðal tegundir í útrýmingarhættu sem heita svo framandi nöfnum sem kauila, uhiuhi, koki‘o, ‘aiea og halapepe-tré. Meira en fjórðungur þeirra tegunda sem teljast vera í útrýmingarhættu þar í landi vaxa í þurrlendisskógum að því er heimildir herma frá samtökunum Ka'ahahui 'O Ka Nāhelehele. Þessi vistkerfi fóstra líka sjaldgæfa fugla með álíka framandi nöfnum eins og ‘amakih og palila.

Og í ljósi þess að nú er víða þrýst á að ryðja skóga til landbúnaðar, beitar eða annarra nota bendir Bastin á að ekki sé sama samkeppnin um landið á þeim svæðum sem þurrlendisskógarnir vaxa á. Þess vegna búi mikil tækifæri í endurheimt skóglendis á þessum svæðum til að verjast eyðimerkurmyndun og þar með loftslagsbreytingum.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson