Birki að springa út þakið ösku úr Eyjafjallajökulsgosinu 2010. Mynd: Hreinn Óskarsson
Birki að springa út þakið ösku úr Eyjafjallajökulsgosinu 2010. Mynd: Hreinn Óskarsson

  • Brot úr grein Hreins Óskarssonar, Öskufall á Þórsmörk og Goðalandi, úr Ársriti Skógræktar ríkisins fyrir árið 2010 sem kemur út í lok mánaðarins.
Í eldgosinu í Eyjafjallajökli vorið 2010 féll aska víða í næsta nágrenni við eldfjallið. Á láglendi var askan mest sunnan við jökulinn í kring um Þorvaldseyri, Seljavelli og nærliggjandi bæi, sem og norðan megin við Gígjökul og í Húsadal í Þórsmörk. Urðu skógar og trjágróður á þessu svæði þó almennt ekki fyrir skemmdum vegna öskufallsins. Jafnvel þar sem aska féll með rigningu og hlóðst á skóginn líkt og bleytusnjór, eins og gerðist í Húsadal. Náðu trén að standa af sér öskufargið og litu vel sumarið 2010. Í Þórsmörk og á Goðalandi lagðist askan að mestu í skógarbotninn og fauk ekki þótt hvessti. Trjágróður tók að laufgast strax að loknu eldgosi um og eftir 20. maí og opnuðust brum birkis og víðis með smellum þar sem fíngerð aska hafði húðast á greinar. Gróður í skógarbotninum óx upp úr öskulaginu og huldi það fljótt. Allra fyrstu tegundirnar sem upp komu úr öskunni voru hvönn, blágresi, lúpína og grös ýmiskonar. Þegar leið á júní fóru að  koma í ljós ýmsar skógarjurtir, s.s. smári,
brönugrös, hrútaberjalyng, möðrutegundir, berjalyng, elfting ofl.

frett_09062010_109
 
Spratt allur gróður á svæðinu með eindæmum vel sumarið 2010. Eftirtektarvert var hversu vel smáplöntur af birki uxu, þrátt fyrir að toppbrumið hafi varla staðið upp úr öskunni sem var allt að 3 cm þykk. Niturbindandi jurtir spruttu sem aldrei fyrr, t.d. smári, umfeðmingur og baunagras. Góða sprettu í þessum tegundum má hugsanlega skýra með að töluvert var af fosfór og öðrum steinefnum í öskunni sem hafa haft jákvæð áhrif á efnaferli niturbindandi baktería á rótum þessara tegunda. Askan innihélt ýmis önnur steinefni og snefilefni og virkaði því eins og áburðargjöf. Fleira en næringin jók sprettu, en sumarið var það hlýjasta sem mælst hefur sem hefur án efa stuðlað að góðri sprettu. Svart öskuyfirborðið hitnaði einnig vel svo jarðvegshiti hefur verið góður fyrir plöntuvöxt.

Í framtíðinni mun öskulag Eyjafjallajökulsgossins sjást í jarðvegi undir skógunum, enda lagðist það í jafnt og heillegt lag innan skóganna. Annað var uppi á teningnum á bersvæðum í nágrenni Eyjafjallajökuls. Þar fauk fíngerðari askan í loft upp og olli svifryksmengun víða en þyngri askan fauk í skafla á skjólsælum stöðum með tilheyrandi gróðurskemmdum. Gerðist þetta strax sumarið 2010 þó lítið væri um hvassviðri á Suðurlandi. Hélt þetta öskufok áfram um haustið þegar vind hreyfði og þurrt var og mun þetta líklega halda áfram næstu misserin þar sem mest er af öskunni.

frett_09062010_102

Hvað má læra af eldgosinu?

Eftir að hafa fylgst með afleiðingum öskufalls á mismunandi gróðurvistkerfi nú í sumar er öllum ljóst að skógar bæði þola öskufall og þeir koma í veg fyrir að aska fjúki og valdi skaða annarsstaðar. Gildir þetta bæði um nytjaskóga sem og birkiskóga.
Eina varanlega leiðin til að koma í veg fyrir öskufok í kjölfar ösku og vikurgosa er því að klæða úthaga aftur skógi eða kjarri og ræktunarland skjólbeltum eftir því sem hægt er.

Endurheimt birkiskóga landsins er ódýr leið til að koma varanlega í veg fyrir öskufok í nágrenni eldfjalla. Hefur endurheimt birkiskóga með friðunaraðgerðum staðið yfir hér á landi í heila öld, t.d. í Hallormsstaðarskógi, Vaglaskógi og Þórsmörk. Á síðustu árum hafa slíkar aðgerðir náð til mun stærri svæða en áður eða um 1% Íslands. Tilgangur stærsta verkefnis þessarar tegundar, Hekluskóga, er að rækta aftur upp birkiskóga sem áður þöktu landið. Þannig má binda ösku sem á eftir að falla í næsta nágrenni Heklu og koma í veg fyrir að aska og vikur fjúki frá öskufallsvæðum, valdi uppblæstri og skaði landbúnað og lífsskilyrði í nálægum byggðum. Til að koma upp birkiskógum og kjarri í grennd við virk eldfjöll hér á landi mætti nýta þá aðferðarfræði sem þróuð hefur verið á síðustu árum í tengslum við Hekluskóga. Sem dæmi má nefna svæði í nágrenni við  Eyjafjallajökul, Kötlu, Öræfajökul og eldstöðvar í Þingeyjarsýslum.Beitarstýring og tímabundin friðun landsvæða skilar miklum  árangri við endurheimt birkiskóga.


Texti og myndir: Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi