Bimbika Sijapati Basnett, vísindamaður hjá CIFOR, ræðir við dr. Peter Holmgren og dr. Louis Verchot,…
Bimbika Sijapati Basnett, vísindamaður hjá CIFOR, ræðir við dr. Peter Holmgren og dr. Louis Verchot, forystumenn hjá CIFOR, í tilefni af alþjóðlegum degi skóga. Myndband: CIFOR

Uppsláttargreinar og myndband með viðtölum við toppsérfræðinga

Í tilefni af alþjóðlegum degi skóga 21. mars sendi alþjóðamiðstöð skógfræðirannsókna, Center for International Forestry Research, (CIFOR), frá sér fróðlegar greinar og myndband með viðtölum við framúrskarandi sérfræðinga. Vert þótti á þessum degi að vekja athygli á þýðingu skóga fyrir lífið á jörðinni á þessu ári sem skipt getur sköpum í samstarfi þjóða heims um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.

Sérfræðingarnir eru á einu máli um að skógar hafi stóru hlutverki að gegna í baráttu mannkyns við loftslagsbreytingar og til að tryggja sjálfbæra framtíð fólks á jörðinni. Þeir benda á vaxandi vísindaleg gögn sem geti hjálpað ríkjum heims til að ná markmiðum sínum í loftslagsmálum.

Fyrst má nefna myndband með viðtali við forstjóra CIFOR, dr. Peter Holmgren, og dr. Louis Verchot sem stýrir umhverfissviði CIFOR. Í viðtalinu er rætt um þau miklu og krefjandi verkefni sem skógargeirinn stendur frammi fyrir í heiminum en líka hin miklu tækifæri sem fram undan eru. Holmgren bendir meðal annars á að nú sé tækifærið að benda heimsbyggðinni á að skógrækt og skógarnytjar séu ekki eingöngu umhverfismál. Skógar geti útrýmt fátækt, tryggt fæðuöryggi, stuðlað að velmegun í græna hagkerfinu, gefið orku og svo framvegis.

Í september í haust verða gefin út hjá Sameinuðu þjóðunum í New York markmið um sjálfbæra þróun sem ætlað er að vísa þjóðum heims veginn til framtíðar sem verði efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbær. Á fundi loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna í París í desember ræða forystumenn þjóða heims um nýjan alþjóðlegan loftslagssamning sem á að taka við af Kyoto-bókuninni.

Innan þessara alþjóðlegu ramma verða þjóðir heims að hafa bæði sjálfbærni og loftslagbreytingar til hliðsjónar þegar þær skipuleggja framtíðarþróun í löndum sínum og setja sér aðgerðaráætlanir til að ná markmiðum þessara samþykkta. Þetta verður ekki gert án þess að skógar séu teknir með í reikninginn enda snerta skógar og afurðir þeirra næstum alla þætti mannlegra athafna.

Louis Verchot segir í viðtalinu að skógrækt sé efnahagsleg starfsemi fyrst og fremst. Skógrækt leggi til dæmis drjúgan skerf að framfærslu fólks í dreifbýli. Þeir stuðli að sjálfbærri þróun og eins og sjá megi á því sem er á dagskrá loftslagsmálanna sé skógrækt eitt þeirra sviða í heiminum þar sem merkja megi raunverulegar framfarir.

Í þessum efnum er Brasilía tekin sem gott dæmi. Þær eru því miður ekki margar sögurnar af löndum sem náð hafa virkilegum árangri í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en Brasilíumönnum tókst að draga úr losun hjá sér um 40% frá því sem var 1990 nánast eingöngu með markvissu þjóðarátaki gegn skógareyðingu. Á árabilinu 2004 til 2012 hægðu Brasilíumenn á hraða skógareyðingar í landinu um 76 af hundraði og jafnvel þótt nýjar skýrslur bendi til þess að skógareyðingin sé tekin að aukast á ný á Amason-svæðinu verður ekki af Brasilíumönnum tekið að engin þjóð í heiminum hefur náð meiri árangri í að minnka losun.

Með svipuðum hætti hafa skógar mikilvægt hlutverk í að tryggja sjálfbæra þróun. Jafnvel þótt skógar séu einungis nefndir undir einu af þeim sautján sjálfbærnimarkmiðum sem lögð hafa verið fram sem uppkast skipti skógar mjög miklu máli fyrir næstum öll þessara markmiða.

Verchot segir að skógar verði snar þáttur í vinnunni að mörgum þessara markmiða, hvort sem það er baráttan við að minnka fátækt, að tryggja aðgang fólks að hreinu vatni eða að viðhalda framleiðni í landbúnaði. Þess vegna sé einfaldlega útilokað að líta á skóga sem eitthvert afmarkað svið og öðru ótengt. Forystufólk í löndum heimsins verði að huga að því hvernig markmiðunum verði náð með sem markvissustum hætti í fjölbreytilegu umhverfi.

Hann bendir líka á að fyrir hendi sé vísindaleg þekking sem hjálpað geti þjóðum heims að taka upplýstar ákvarðanir og velja af skynsemi þær leiðir sem þeim hentar best að fara til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Sömuleiðis sé vísindasamfélagið, bæði á alþjóðavísu og í hverju landi fyrir sig, reiðubúið til að styðja löndin með upplýsingum og greiningarvinnu svo þau megi taka sem skynsamlegastar og bestar ákvarðanir.

Auk myndbandsins sem hér hefur verið rætt um er bent á tvær fróðlegar uppsláttargreinar í veffréttariti CIFOR, Forests News.

Séð yfir Juruena-fljótið í sambandsríkinu Mato Grosso í Brasilíu.
Mynd: Icaro Cooke Vieira/CIFOR.

Annars vegar er greinin It's a forest, not a 'museum': What sustainable development means in the tropics. Í greininni er rætt um skóga hitabeltisins sem gjarnan sé litið á ýmist sem gróðavon þar sem megi höggva skóginn og græða peninga á timbrinu eða sem náttúruperlur sem helst megi ekki snerta við. Hvort tveggja sé mikil einföldun því að yfirleitt búi fólk í eða við þessa skóga og hafi af þeim lífsviðurværi eins og þeir eru. Skógarnir viðhaldi líka vatnsbólum fólksins, jarðvegsauðlindinni og svo framvegis.

Í nýlegri rannsókn á vegum CIFOR voru kannaðir hagir 8.000 fjölskyldna í 24 þróunarríkjum og í ljós kom að náttúrlegir skógar og önnur náttúrunýting sá heimilunum fyrir 28% af heildartekjum. Það stappar nærri þeim tekjum sem heimilin hafa af uppskeru í landbúnaði.

Hins vegar er greinin Sustainable Development Goals and forestry: Lessons from Peru. Þar er sagt frá því hvernig skógar á bökkum Ampiyacu-árinnar í norðaustanverðu Perú voru ofnýttir með skógarhöggi, fiskveiðum og dýraveiðum. Þar voru aðkomumenn á ferð. Heimamenn nutu einskis arðs af nýtingunni en tóku loks málið í sínar hendur, settu upp verndarsvæði og hófu eftirlit með ám og skógum. Árangurinn lét ekki á sér standa. Fiskistofnar tóku við sér og aftur varð auðveldara fyrir fólk að sjá sér og sínum farborða. Sum samfélögin á svæðinu hafa meira að segja gert sér áætlanir um timburnýtingu til að ofnýta ekki auðlindina.

Þótt þessar tvær greinar séu nefndar ásamt einu tilteknu myndbandi er rétt að benda á að í veffréttariti CIFOR er fjöldi annarra fróðlegra greina og viðtala sem vert er fyrir fólk að líta á.

Texti: Pétur Halldórsson
Heimildir: CIFOR