Greinin hér að neðan birtist á bls. 24 í Morgunblaðinu, laugardaginn 10. apríl 2010.


Þvert á það sem haldið hefur verið fram sýna nýjar íslenskar rannsóknir að skógrækt hefur ekki neikvæð áhrif á vatnsgæði. Nýjar niðurstöður benda til þess að efnaútskolun sé í raun meiri frá minna grónum og skóglausum vatnasviðum heldur en landi sem klætt er birki eða barrtrjám.

Fyrir nokkrum árum varð sú umræða hávær hér á landi að ástæða væri til að hafa áhyggjur af skógrækt í grennd við Þingvallavatn. Skógræktin hefði hugsanlega neikvæð áhrif á vatnsgæði og myndi leiða til ofauðgunar bæði straumvatna og stöðuvatna af nítrati eða köfnunarefni. Þessi umræða byggðist á erlendum niðurstöðum, á stöðum þar sem aðstæður eru ólíkar því sem hér gerist.

Talsmenn skógræktar höfðu ekki svör við fullyrðingum um þessi efni, þar sem afar takmarkaðar rannsóknir höfðu farið fram hérlendis á áhrifum skógræktar á vötn og vatnalíf. Umræðan hefur hins vegar haft mikil áhrif á skógrækt víða um land og gjarnan komið upp þar sem sveitarfélög hafa unnið að aðalskipulagi og deiliskipulagi á síðustu árum. Dæmi eru um að skógrækt hafi verið bönnuð í ákveðinni fjarlægð frá ám og vötnum vegna þessa.

Þetta varð til þess að hópur fræðimanna hóf undirbúning rannsókna á þessum vettvangi. Það þróaðist síðan út í formlegt samstarf Landbúnaðarháskólans, Háskóla Íslands, Veiðimálastofnunar, Skógræktarinnar, Landgræðslunnar, Veiðimálastofnunar og Matís um rannsóknir sem lúta að samspili gróðurfars á vatnsgæði og vatnalíf. Umhverfis- og orkurannsóknasjóður Orkuveitu Reykjavíkur hefur verið aðalstyrktaraðili rannsóknanna, auk erlendra rannsóknasjóða. Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskólann, leiðir verkefnið sem gengur undir heitinu SkógVatn (www.skogvatn.is).

Í rannsókninni voru áhrif gróðurfars á efnasamsetningu straumvatns rannsökuð. M.a. var leitað svara við því hvaða áhrif endurheimt birkiskóga og skógrækt með barrtrjám hefur á rafleiðni, nítratútskolun, sýrustig og vatnshita.

Rannsóknir voru gerðar á sautján vatnasviðum á Fljótsdalshéraði og í nágrenni Heklu. Á Héraði er samfellt skógarland bæði barr- og birkiskóga og því bestu aðstæður til slíkra rannsókna hér á landi. Þar er hins vegar eldri berggrunnur og því var ákveðið að gera rannsóknirnar jafnframt á eldvirka svæðinu í nágrenni Heklu, þar sem eru eingöngu birkiskógar. Bjarni segir að ekki hafi hentað að gera þessar rannsóknir við Þingvallavatn því skógurinn þar sé í raun bara örlitlar eyjar í landslaginu og því illmögulegt að aðgreina hugsanleg áhrif hans frá öðrum hugsanlegum áhrifaþáttum, svo sem sumarbústaðabyggð, losun frá bílaumferð og landbúnaði.

Aðstæður ekki sambærilegar

Nýlega voru fyrstu niðurstöður verkefnisins kynntar. Þær sýna með marktækum hætti að efnaútskolun sé meiri frá skóglausum og minna grónum vatnasviðum, ef til vill vegna meira jarðvegsrofs á þeim í leysingum og rigningatíð. Nítratútskolunin var minnst þar sem barrskógar vaxa á vatnasviðunum. Samkvæmt því er fátt sem styður hugmyndir um neikvæð áhrif skógræktar með barrtrjám á vatnsgæði, til dæmis á Þingvallavatn.

„Þar sem ekki er skógur er meiri hætta á að vistkerfin sleppi frá sér nítrati og ástæðan er rofin gróðurþekja sem nær ekki að halda í nítratið sem er nauðsynlegt plöntunæringarefni, sérstaklega yfir veturinn,“ segir Bjarni. „Birkiskógarnir eru öflugir í að halda í þetta nítrat, sem sumir hafa haft áhyggjur af að valdi ofauðgun ef það sleppur út í straumvatn og stöðuvötn. Losunin er síðan enn minni frá barrskógunum sem eru enn öflugri við að halda í nítratið.“

Bjarni segir að í umræðunni hafi aðstæður í Evrópu verið heimfærðar upp á Ísland án þess að rannsóknir lægju fyrir. „Þar er mikil mengun og ákoma af köfnunarefni á ákveðnum svæðum þar sem skógarnir eru duglegir að fanga. Efnin rignir síðan af trjánum og mengunin berst niður í jarðveginn. Á Íslandi er ekki sambærileg mengun frá iðnaði, landbúnaði og miklum samgöngum og er í þessum löndum, og því skortir forsenduna fyir áhrifunum,“ segir Bjarni.

Gæði vatns

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og VG segir að „vatnatilskipun ESB verði innleidd og aðlöguð íslenskum aðstæðum með því að lokið verði við frumvarp til nýrra vatnalaga, sem tryggi verndun og sjálfbæra nýtingu ferskvatns og skilgreini aðgang að vatni sem grundvallarmannréttindi“.

Bjarni segir að vatnatilskipunin fjalli meðal annars um að hafa eftirlit, en um leið að auðga þekkingu á áhrifum landnýtingar á vatn og vatnsgæði. „Þær rannsóknir sem þegar hafa verið unnar gefa okkur grunn til að geta fylgst með hvað gerist í framtíðinni. Slíkt verður skylda stjórnvalda samkvæmt vatnatilskipuninni,“ segir Bjarni.


Texti: Ágúst Ingi Jónsson, blaðamaður Morgunblaðsins