Stundum heyrist því haldið fram að skógrækt geti verið ógn við líffjölbreytileika og breytt fjölbreytilegum vistkerfum í fábreytt. Fátt er fjær sanni. Á vef FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, kemur fram að skógar fóstri yfir 80% af allri líffjölbreytni landvistkerfa á jörðinni.

Í Amason-frumskóginum í Suður-Ameríku er að finna yfir 1.300 tegundir skógarplantna sem nýttar eru í lækningaskyni eða í tengslum við einhvers konar menningarlegar athafnir fólks. Varðveisla líffjölbreytni er eitt af markmiðum skógræktar og skógarnytja í heiminum og meginmarkmið á um það bil 13 prósentum alls skóglendis jarðar.

Staðfest hefur verið að allt að 1.200 plöntutegundir hafi dáið út á sögulegum tíma. Eyðing hitabeltisregnskóga á þar stærstan hlut að máli. Ef við töpum líffjölbreytileika töpum við um leið ýmsum möguleikum til framleiðslu gagnlegra lyfja, matvæla og öflunar hráefna í margvíslega framleiðslu. Um leið tapast atvinnutækifæri fyrir fólk.

Að frátöldu smádýralífinu er fátt um villtar dýrategundir í náttúru Íslands aðrar en fugla. Að jafnaði er það þó svo í heiminum að villt dýr gegna mikilvægu hlutverki í viðhaldi heilbrigðra vistkerfa en þau eru líka snar þáttur í því að tryggja dreifbýlissamfélögum mat og lífsviðurværi.

Skógrækt lýtur sömu lögmálum á Íslandi og annars staðar. Með skógi verður til fjölbreytilegt vistkerfi ótal tegunda lífvera allt frá smæstu örverum upp í skordýr, fugla og spendýr. Á Íslandi er mikið um fábreytileg vistkerfi sem fóstra fáar tegundir en lítið um skóga með fjölbreytilegum vistkerfum. Ástæða er til að auka skóglendi á Íslandi til að auka líffjölbreytni landsins rétt eins og FAO mælir með að gert sé vítt og breitt um heiminn.

Stöðugt er fylgst með vexti og þróun skóga á Íslandi í verkefninu Íslenskri skógarúttekt. Sams konar vöktundarkerfi eru víða um lönd en uppruna þeirra má rekja um það bil öld aftur í tímann þegar hinar Norðurlandaþjóðirnar hófu reglulegar skógmælingar af þessum toga. Í slíkum úttektum er ýmislegt fleira mælt en trén. Botngróður er metinn, tekin jarðvegssýni til dæmis. Á Papúa Nýju-Gíneu eru skordýrin líka skoðuð og stærri dýr sömuleiðis eins og sést hér í áhugaverðu myndbandi frá FAO. Skógar skipta sköpum fyrir framtíð líffjölbreytni jarðarinnar.

Papua New Guinea: First National Forest Inventory and Biodiversity Survey